Sérfræðiálit verður lagt fram
Sérfræðiálit, sem 65. grein sveitarstjórnarlaga kveður á um að liggja eigi fyrir þegar sveitarfélag hyggst ráðast í stóra fjárfestingu, mun liggja fyrir í næstu viku þegar bæjarstjórnarfundur verður haldinn um viðskipti Reykjanesbæjar og GGE um HS Orku. Þetta segir Böðvar Jónsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og formaður bæjarráðs.
Böðvar vísar til ummæla Atla Gíslasonar, lögmanns og þingmanns Vinstri grænna. Haft er eftir Atla að hann efist um lögmæti þess samnings sem Reykjanesbær og GGE hafa gert um kaup og sölu á HS Veitum og HS Orku. Atli tekur þar með undir sjónarmið A-listans í bæjarráði þar sem vísað er í áðurnefnda grein sveitarstjórnarlaga.
„Þetta sérfræðiálit á að liggja fyrir þegar sveitarstjórn tekur málið til afgreiðslu og það mun líka liggja fyrir þegar bæjarstjórnarfundur verður haldinn um málið í næstu viku. Það var ekki þörf á þessu áliti við afgreiðslu bæjarráðs en þó lá fyrir mat Deloitte á viðskiptunum,“ segir Böðvar Jónsson.
Hann segir 65. greinina eiga við kaup bæjarins á 32% hlut í HS Veitum, þ.e. hvernig hún hafi áhrif á fjárhagsáætlun bæjarins og samrýmist 3ja ára áætlun.
„Annað sem Atli var að ræða um, þ.e. eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga, á ekki við nema þegar um er að ræða sölu á fasteignum sveitarfélagsins. Það er ekki um það að ræða í þessu tilviki,“ segir Böðvar.
Til fróðleiks er 65. grein sveitarstjórnarlaga svohljóðandi:
"65. gr. [Miklar fjárfestingar og sala fasteigna.]1)
Hyggist sveitarstjórn ráðast í fjárfestingu og áætlaður heildarkostnaður eða hlutur sveitarfélagsins í henni nemur hærri fjárhæð en fjórðungi skatttekna yfirstandandi reikningsárs er skylt að leggja fyrir sveitarstjórn umsögn sérfróðs aðila um kostnaðaráætlunina, væntanleg áhrif hennar á fjárhagsafkomu sveitarsjóðs á fyrirhuguðum verktíma og áætlun um árlegan rekstrarkostnað fyrir sveitarsjóð, sé um hann að ræða. Jafnframt skal gerð grein fyrir því hvernig framkvæmdin samræmist þriggja ára áætlun sveitarfélagsins.
[Á sama hátt skal afla álits sérfróðs aðila áður en sveitarstjórn staðfestir samninga um framkvæmdir eða þjónustu við íbúa sveitarfélagsins sem gilda eiga til langs tíma og hafa í för með sér verulegar skuldbindingar fyrir sveitarsjóð. Þetta gildir einnig um samninga um sölu og endurleigu fasteigna sem falla undir 2. mgr. 73. gr.
Ákveði sveitarstjórn að selja fasteignir sveitarfélags sem falla undir 2. mgr. 73. gr. skal hún tilkynna þá ákvörðun til eftirlitsnefndar. Eftirlitsnefnd skal kanna hvaða fjárhagslegu áhrif salan hefur á rekstur sveitarfélagsins. Eftirlitsnefnd getur sett fram tillögur sínar til viðkomandi sveitarstjórnar um ráðstöfun söluandvirðis eða ávöxtun þess. Ráðherra getur, að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, sett í reglugerð nánari fyrirmæli um form tilkynninga, viðmiðanir við athugun eftirlitsnefndar og önnur atriði er varða framkvæmd ákvæðisins.]1)
kveður á að sérfræðiálit skuli liggja fyrir um áhrif fyrirhugaðra viðskipta á fjárhagsáætlun og 3ja ára áætlun. "
Aðrar tengdar fréttir og greinar á vf.is :
Efast um lögmæti samningsins
Birtið skýrslu endurskoðendanna
Segja réttast að ríkið leysi til sín GGE
Einstaklega góðir samningar fyrir Reykjanesbæ, segir Deloitte
Forkaupsréttur felldur brott samþykki hluthafar ekki samninginn
Sjálfstæðismenn samþykktu kaupsamninginn
Ugla mótmælir sölu Reykjanesbæjar á HS Orku til Geysis Green Energy
Kanadískt jarðvarmafyrirtæki og GGE gætu eignast allt hlutafé HS Orku
Grindvíkingar geta keypt Svartsengi af Reykjanesbæ
Lögfræðingur Grindavíkurbæjar og ráðgjafar fari yfir kaupsamning
Undrast samingsdrög um landakaup Reykjanesbæjar í lögsögu Grindavíkur
Reykjanesbær eignast jarðhitaréttindi
Reykjanesbær selur HS Orku til Geysis Green Energy