Seinagangur við Hringbrautina
Megn óánægja er með framkvæmdir við Hringbrautina í Reykjanesbæ en í upphafi aprílmánaðar var stór hluti Hringbrautar fræstur upp. Enn hefur ekki verið fyllt í Hringbrautina þar sem hún var fræst upp og hafa Víkurfréttum borist töluvert af kvörtunum vegna þessa.
Brattar og beittar brúnir á Hringbrautinni geta farið illa með dekkin á þeim bílum sem um hana aka og þá er hún seinfarin sökum framkvæmdanna. Hringbrautin er ein umferðarþyngsta gata Reykjanesbæjar og því óskiljanlegur sá seinagangur sem einkennt hefur verkið.
Viðar Már Aðalsteinsson, forstöðumaður umhverfis- og skipulagssviðs Reykjanesbæjar, segir það vera af veðurfarslegum ástæðum að ekki hefur fyllt upp í holurnar á Hringbrautinni. „Nú er verið að bíða færis svo hægt verði að laga þetta,“ sagði Viðar Már í samtali við Víkurfréttir. „Þetta er vissulega vesen á meðan þessu stendur en frídagarnir hafa komið til tafa í þessu máli ásamt veðrinu en við erum í startholunum núna og bíðum eftir því að komast í þetta,“ sagði Viðar Már en gatnaframkvæmdunum í Reykjanesbæ er ekki lokið að sögn Viðars.
„Það standa fyrir yfirlagnir á eldri götum sem eru orðnar ansi slæmar og því verða malbikunarframkvæmdir í eldri hverfum áberandi næstu tvo mánuðina. Þetta er hluti af vorverkefnum okkar og við biðjum fólk um að hafa biðlund með okkur,“ sagði Viðar að lokum.
VF-myndir/ elg: Eins og sést á meðfylgjandi myndum þá er ástandið á Hringbrautinni ekki boðlegt til lengri tíma.