Segja upp strætóakstri eftir tugmilljóna króna mistök

- Alvarleg mistök gerð við útreikninga. Rekstri SBK lýkur á sama tíma

SBK hefur sagt upp þjónustusamningi um akstursþjónustu milli höfuðborgarinnar og Suðurnesja. Samningurinn er við Samband sveitarfélaga á Suðurnesja, SSS, og á við um svokallaða Leið 55 hjá Strætó. Björn Ragnarsson, framkvæmdastjóri Kynnisferða, sem eru eigandi SBK, segir að alvarleg mistök hafi verið gerð við útreikninga þegar tilboð var gert í aksturinn árið 2014. SBK hafi þurft að greiða tugi milljóna með akstrinum á ári og móðurfélag SBK hafi einnig komið að málum. Með sama áframhaldi stefndi reksturinn í þrot. Félagið hafi átt fund með SSS í september og síðan hafi samningnum verið sagt upp með þriggja mánaða fyrirvara.

Stjórn SSS hefur bókað um málið en þar segir: „Í bréfi SBK kemur fram að fyrirtækið ætli sér ekki að efna samninginn sem þeir gerðu við SSS að undangengu útboði árið 2104. Lögfræðistofunni LOGOS falið að svara bréfinu fyrir hönd stjórnar S.S.S. í samræmi við framlögð gögn. Framkvæmdastjóra og formanni falið að vinna verkefnið áfram í samræmi við umræður stjórnar.“

Berglind Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, sagði í samtali við Víkurfréttir að þessa dagana væri unnið að því að kanna réttarstöðu SSS, sem og að huga að því hvernig hægt sé að leysa úr þessari flóknu stöðu sem komin er upp.

„Við höfum jafnframt fundað með Vegamálastjóra og munum vinna þetta áfram með Vegagerðinni,“ sagði Berglind.

SBK mun um áramót renna inn í rekstur Kynnisferða. Merkjum SBK verður áfram haldið á lofti og félagið verður áfram með starfsstöð í Grófinni í Keflavík. Flestum bílstjórum fyrirtækisins hefur verið boðin áframhaldandi vinna en markaðsmál SBK verða nú í höndum Kynnisferða sem mun nýta sölukerfi sitt fyrir SBK í framtíðinni.