Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Segja upp samningum við Thorsil í Helguvík
Fimmtudagur 14. maí 2020 kl. 19:59

Segja upp samningum við Thorsil í Helguvík

Hafnarstjóra Reykjaneshafnar hefur verið falið að segja upp samningum við Thorsil ehf. Farið var yfir stöðu mála varðandi fyrirhugaða uppbyggingu Thorsil ehf. á iðnaðarsvæðinu í Helguvík á fundi stjórnar Reykjaneshafnar síðdegis.

Þann 11. apríl 2014 var undirritaður lóðar- og hafnarsamningur milli Reykjaneshafnar annars vegar og Thorsil ehf. hins vegar um uppbyggingu kísilverksmiðju á iðnaðarsvæðinu í Helguvík, en í samningum fólst m.a. að Reykjaneshöfn tryggði Thorsil ehf. ákveðna lóðaraðstöðu. Með þeirri uppbyggingu átti að skapast vel launuð störf á svæðinu ásamt auknum umsvifum í starfsemi Reykjaneshafnar, segir í gögnum frá fundi stjórnar hafnarinnar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Nú eru liðin meira en sex ár frá þeirri undirritun og ekkert bólar á fyrirhugaðri starfsemi. Fyrirliggjandi eru samningsviðaukar aðila þar sem kveðið er á um greiðslufyrirkomulag þeirra gjalda sem inna átti af hendi á grundvelli samningsins. Í ljósi þess að greiðslur hafa ekki borist lítur Stjórn Reykjaneshafnar svo á að Thorsil ehf. hafi vanefnt samningsskyldur sínar. Á tímum óvissu og atvinnubrests er þörf á allri uppbyggingu til að vega upp á móti óheillavænlegri þróun. Stjórn Reykjaneshafnar telur óforsvaranlegt að bíða endalaust í óvissu á meðan nýir aðilar óska eftir samræðum um framtíðaruppbyggingu. Því er lagt til að hafnarstjóra verði falið að segja samningum upp í samræmi við 2. mgr. greinar 7.4 í fyrrnefndum lóðar- og hafnarsamningum frá og með n.k. mánaðarmótum,“ segir orðrétt í afgreiðslu stjórnar Reykjaneshafnar sem var samþykkt samhljóða.