Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Segja ummæli þingmanns ekki sönn
Kísilver United Silicon í Helguvík. VF-mynd/hilmarbragi
Miðvikudagur 29. mars 2017 kl. 14:43

Segja ummæli þingmanns ekki sönn

Forsvarsmenn United Silicon telja lýsingu þingmannsins Ásmundar Friðrikssonar á kísilverksmiðju United Silicon ekki rétta. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef fyrirtækisins. Ásmundur sagði í pontu á Alþingi í gær og í aðsendri grein á vef Víkurfrétta að fyrirtækið greiði starfsmönnum sínum 450.000 krónur á mánuði en ekki 600.000 til 700.0000 krónur líkt og önnur stóriðjufyrirtæki. Þá baðst hann afsökunar á því að hafa stutt uppbyggingu fyrirtækisins á sínum tíma. Í tilkynningu á vef United Silicon segir að meðallaun hjá fyrirtækinu í mars séu um 650.000 krónur.

Ásmundur sagði í gær að heildarstuðningur hins opinbera í gegnum fjárfestingasamning sé rúmar 700 milljónir króna. Í tilkynningu United Silicon segir að upphæð samningsins geti að hámarki orðið 485 milljónir. „Um aðra fyrirgreiðslu er það að segja að félagið nýtur undanþágu á aðflutningsgjöldum með sama hætti og stóriðjan í landinu, hvort heldur er á Grundartanga, í Straumsvík eða á Reyðarfirði,“ segir á vef United Silicon.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Líkt og fjallað hefur verið um í fréttum hafa íbúar í Reykjanesbæ kvartað yfir mengun frá kísilverksmiðjunni og á dögunum sýndu niðurstöður mælinga að styrkur arsens í andrúmslofti væri yfir þeim mörkum sem umhverfismat gerði ráð fyrir. „Stjórnendur United Silicon hf. gera sér grein fyrir þeim mikla þrýstingi sem þingmenn og aðrir fulltrúar almennings hafa orðið fyrir vegna frétta um þá erfiðleika sem hafa steðjað að rekstri kísilmálmverksmiðju United Silicon hf. undanfarið. Hins vegar er unnið hörðum höndum við að leysa þau mál sem upp hafa komið og við höfum fulla trú á að það muni takast,“ segir í tilkynningunni.