Segja tillögur um niðurskurð vart eiga sér hliðstæðu
Fulltrúar Samfylkingar í Fjölskyldu- og félagsmálaráði Reykjanesbæjar segja tillögur að niðurskurði í félagsmálakerfi bæjarins vart eiga sér hliðstæðu hjá nokkru öðru bæjarfélagi í landinu. Farið var yfir boðaðar aðhaldsaðgerðir í rekstri bæjarins á síðasta fundi Fjölskyldu- og félagsmálaráðs og ræddar hugmyndir félagsmálastjóra í aðhaldsaðgerðum fyrir ráðið. Ráðið hafði ýmsar athugasemdir og óskar eftir að tillit verði tekið til þeirra áður en hugmyndirnar fara áfram. Það vill jafnframt að fá tækifæri til að koma að umræðum áður en endanleg ákvörðun verður tekin.
„Afleiðingar stefnu meirihluta sjálfstæðismanna í atvinnuuppbyggingu og fjármálum bæjarins eru nú að koma í ljós. Afleiðingar sem skv. tillögum þeim á fundi þessum hafa verið lagðar fyrir munu leiða til niðurskurðar í félagsmálakerfinu sem vart eiga sér hliðstæðu hjá nokkru öðru bæjarfélagi í landinu.
Mörg undanfarin ár hefur minnihlutinn í bæjarstjórn varað við þeirri óráðsíu og ábyrgðarleysi er einkennt hefur störf meirihluta sjálfstæðismanna, og bent á að sú stefna myndi að lokum koma fram á þjónustustigi bæjarins. Tillögur þær sem hér liggja fyrir er sönnun þess að þær aðvaranir hafa verið á rökum reistar.
Það er tillaga fulltrúa Samfylkingarinnar í fjölskyldu og félagsmálaráði að áður en tillögur þessar verði samþykktar að bæjarráð Reykjanesbæjar móti heildstæða stefnu hvernig haga skuli niðurskurði á þjónustu og fjárhag bæjarins. Um leið viljum við undirstrika ábyrgð meirihluta sjálfstæðisflokksins á þeirri þungu stöðu sem bærinn stendur nú frammi fyrir,“ segir í bókun sem fulltrúar Samfylkingar í ráðinu lögðu fram á fundinum. Undir hana skrifa Jóhanna Björk Pálmadóttir og Hannes Friðriksson.