Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Segja skólastarfið sett í uppnám
Föstudagur 18. júní 2010 kl. 11:21

Segja skólastarfið sett í uppnám


Nýr minnihluti G- og S-lista í bæjarstjórn Grindavíkur telur að allt skólastarf í Grindavík verði sett í uppnám með með því að sameina rekstur beggja grunnskólanna, eins og meirihlutinn samþykkti á fyrsta bæjarstjórnarfundi nýkjörinnar bæjarstjórnar. Minnihlutinn lagði fram tillögu þess efnis að tillögu meirihlutans þar að lútandi yrði vísað frá og ekki tekin til afgreiðslu. Í stað þess yrði sameining grunnskólanna  tekin út af fagaðilum ásamt allri annarri stjórnsýslu bæjarins og gefið yrði a.m.k eitt ár til þess.

Fyrir fundinum lá tillaga meirihluta Framsóknar og Sjálfsæðisflokks þess efnis að sameina Grunnskóla Grindavíkur og Hópsskóla fyrir upphaf skólastarfs næsta haust undir stjórn eins skólastjóra. Fræðslu- og uppeldisnefnd yrði falið að vinna tillögu að útfærslu sameiningarinnar til bæjarráðs við fyrsta tækifæri þ.m.t. um breytingar á starfsmannamálum. Nefndin myndi áður fara yfir málið með skólastjórnendum skólanna og leita sjónarmiða þeirra.

Meirihlutinn telur að með því að sameina skólana á ný og reka grunnskólann undir sömu yfirstjórn verði meiri samfella og samræmi í skólastarfinu á grunnskólastigi. Með því megi lækka kostnað við rekstur grunnskólanna.

„Við teljum að með þessari aðgerð sé verið að setja allt skólastarf í Grindavík í uppnám og að nýr skólastjóri nái aldrei að koma sér inn í né skipuleggja starfið fyrir næsta skólaár. Þá er eins og fyrr segir ekkert sem styður þessa aðgerð annað en getgátur meirihlutans,“ segir í rökstuðningi minnihlutans með frávísunartillögunni sem var felld með fjórum atkvæðum gegn þremur.
--

Mynd: Frá vígslu Hópsskóla síðastliðið haust.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024