Segja Reykjanesbæ liggja áfram á gjörgæslu eftirlitsnefndar
„Nýlegt bréf eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga til Reykjanesbæjar staðfestir svo ekki er um villst að öll þau varnaðarorð sem bæjarfulltrúar A-listans hafa haft uppi, eiga við rök að styðjast,“ segja Guðbrandur Einarsson og Guðný Kristjánsdóttir, bæjarfulltrúar A-listans í Reykjanesbæ, í bókun sem þau lögðu fram á bæjarráðsfundi í morgun. Þau gagnrýna ummæli bæjarstjóra um að eftirlitsnefndin „sjái ekki ástæðu til að aðhafast frekar,“ og segja Reykjanesbæ í mesta lagi kominn „úr öndunarvélinni“ Hann muni áfram þurfa að „liggja á gjörgæslu eftirlitsnefndarinnar,“ eins og það er orðað í bókuninni.
„Eftirlitsnefndin staðfestir það sem haldið hefur verið fram um að tekjur sveitarfélagsins standi ekki undir útgjöldum og að óvissa ríki um áætlaðar tekjur. Jafnframt gerir eftirlitsnefndin athugasemdir við framsetningu gagna eins og bæjarfulltrúar A listans hafa gert, m.a um fullyrðingar sjálfstæðismanna um verulegan viðsnúning í rekstri sem ekki á við nein rök að styðjast. Nefndin segir í bréfi sínu að það vanti verulega á að hinn reglubundni rekstur sveitarsjóðs skili viðunandi niðurstöðu eins og það er orðað.
Þá tekur eftirlitsnefnd undir þau sjónarmið að horfa þurfi til skulda að viðbættum skuldbindingum vegna rekstrarleigusamninga þegar metin er staða sveitarfélagsins og því er haldið fram í bréfi eftirlitsnefndar að skuldir og skuldbindingar séu yfir þeim mörkum sem talið er að sveitarfélagið geti búið við til lengri tíma.
Því er staðan alls ekki sú að „eftirlitsnefnd sjái ekki ástæðu til að aðhafast frekar“ eins og haft var eftir bæjarstjóra í vefmiðli Morgunblaðsins mbl.is þriðjudaginn 2. febrúar sl..
Niðurstaða nefndarinnar er sú að ekki verði aðhafst frekar að sinni, en ítrekar varnaðarorð um óvissu í rekstrarforsendum og fjárhagsstöðu. Þá óskar nefndin eftir ársfjórðungslegum reikningsskilum frá sveitarfélaginu sem er óvenjulegt.
Það er í mesta lagi hægt að halda því fram að Reykjanesbær sé kominn úr öndunarvélinni en muni áfram þurfa að liggja inn á gjörgæslu eftirlitsnefndar“ segir í bókun A-listans frá því í morgun.
Fulltrúar sjálfstæðisflokks lögðu fram svohljóðandi bókun:
„Með bréfi Eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga nú eru staðfest þau sjónarmið sem sjálfstæðismenn í bæjarstjórn Reykjanesbæjar hafa haldið fram að ekki sé ástæða til að ,,..aðhafast frekar í málinu að svo stöddu...“. Eftirlitsnefnd óskar eðlilega eftir gögnum um niðurstöðu rekstrar 2009 og framvindu á árinu 2010 og verður að sjálfsögðu orðið við því.
Böðvar Jónsson, Björk Guðjónsdóttir, Steinþór Jónsson“.