Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Segja minnihlutann skapa pólitískt moldviðri á kostnað faglegra sjónarmiða
Miðvikudagur 4. mars 2009 kl. 16:18

Segja minnihlutann skapa pólitískt moldviðri á kostnað faglegra sjónarmiða



Sigurður Valur Ásbjarnarson, bæjarstjóri í Sandgerði segir meirihlutann hafa hafnað tillögu minnihlutans um að óháður aðili gerði úttekt á á samningum sveitarfélagsins við Fasteign ehf, vegna þess að í desember síðastliðnum hafi legið fyrir sú ákvörðun að málefni bæjarins gagnvart Fasteign yrðu skoðuð.
„Þetta var munnlegt samkomulag sem við gerðum við minnihlutann um að taka upp á borðið þetta mál sem og önnur sem menn vildu skoða,“ segir Sigurður.

Sigurður segir að annars vegar hafi verið um að ræða samning við Búmenn, sem þegar hafi verið endurskoðaður. Hins vegar hafi verið um að ræða kaupréttarákvæði í samningi við Fasteign ehf. Meirihlutinn hafi  ekki talið tímabært að endurskoða hann nú. Né heldur hafi verið gert ráð fyrir þeim kostnaði í fjárhagsáætlun.

Minnihlutinn lagði fram tillögu á bæjarstjórnarfundinum þar sem lagt var til að óháður, sérfróður aðili yrði fenginn til að gera úttekt á samningum Fasteignar og Sandgerðisbæjar en í honum er gert ráð fyrir að bæjarfélagið geti keypt eignir sínar til baka á fimm ára fresti. Sá möguleiki er nú fyrir hendi en samningurinn er frá 2004.
Útttektin yrði gerð til þess bæjarfulltrúar gætu stuðst við hana í ákvörðun sinni um það hvort hagkvæmt væri að Sandgerðisbær nýtti sér endurkaupsréttinn nú í ár, eins og fram kemur í bókuninni.

Í bókun meirihlutans er vísað í samkomulag það sem Sigurður vísar til. Á þeirri forsendu taldi meirihlutinn rétt að minnihlutinn drægi tillögu sína til baka „nema ætlunin sé að falla frá því góða samstarfi sem verið hefur innan bæjarstjórnar í nokkurn tíma,“ segir m.a. í bókunni.
Í bókunni er bent á að við gerð fjárhagsáætlunar 2009 hafi engin umræða í þessa veru farið fram í bæjarráði eða bæjarstjórn. Í ljósi þess að lánalínur sveitarfélaga liggi niðri og bæjarfélagið hafi bundið eigið fé til að ljúka framkvæmdum við grunnskólann, séu ekki forsendur á þessu ári til að taka umræddar eignir yfir.

Ólafur Þór Ólafsson kvað minnihlutann ekki reiðubúinn til að taka tillögu sína til baka. Hann óskaði eftir því að tillagan yrði borin upp til atkvæða. Féllu atkvæði þannig að þrír fulltrúar minnihluta voru með tillögunni en fjórir fulltrúar meirihluta gegn henni. Tillagan var því felld.

Fulltrúar minnihlutans segja í annarri bókun að tillaga hans brjóti ekki gegn umræddu samkomulagi meiri- og minnihluta.

Meirihlutinn segir tillögu S- og B- lista  óþarfa og setta fram til að skapa pólitískt moldviðri á kostnað faglegra sjónarmiða, að því er fram kemur í bókun.

Nánar má lesa um bókanir í fundargerð bæjarstjórnar hér.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024