Segja málaliðaher auðvirðilegt fyrirbæri
Samtök hernaðarandstæðinga leggjast eindregið gegn áformum um einkareknar orrustuþotur á Keflavíkurflugvelli.
Samtök hernaðarandstæðinga telja að einkarekinn flugher hollenska fyrirtækisins E.C.A. með 20 óvopnaðar orrustuþotur, sem leigðar verði til heræfinga, eigi ekkert erindi hér á landi.
„Málaliðaher eins og hér um ræðir er eitthvert auvirðilegasta fyrirbæri mannlegrar tilveru. Markmið rekstursins er að þjálfa hermenn í að drepa fólk í fjarlægum og fátækum löndum. Er það vilji íslensku þjóðarinnar að hafa slíka iðju að féþúfu?" er spurt í ályktuninni.
Enn fremur segja hernaðarandstæðingar ljóst að E.C.A. Program sé hálfgert skúffufyrirtæki „og væntanlega leppur fyrir öflugri fyrirtæki". Samtökin staðhæfa að kanadísk stjórnvöld hafi neitað fyrirtækinu um starfsleyfi.
Ályktunin er svohljóðandi:
SHA árétta þá afstöðu sína að starfsemi af þessu tagi eigi ekkert erindi hér á landi. Málaliðaher eins og hér um ræðir er eitthvert auvirðilegasta fyrirbæri mannlegrar tilveru. Markmið rekstursins er að þjálfa hermenn í drepa fólk í fjarlægum og fátækum löndum. Er það vilji íslensku þjóðarinnar að hafa slíka iðju að féþúfu?
Allt tal um vopnleysi starfsmanna fyrirtækisins er aumur fyrirsláttur. Þjálfun orrustuflugmanna og skipulagning heræfinga er og getur aldrei talist annað en hernaðarstarfsemi. Ljóst er að áform fyrirtækisins stangast á við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um að Ísland skuli verða vettvangur friðarumræðu og vinna að afvopnun í heiminum.
SHA hvetja fjölmiðla til að grafast betur fyrir um fyrirtækið E.C.A. Program. Heimilisfang þess er pósthólf í smábæ í Hollandi og þótt forstjóri þess tali drýgindalega um verkefni þess um víða veröld, finnast um þau litlar heimildir. Ljóst er að E.C.A. Program er í dag hálfgert skúffufyrirtæki og væntanlega leppur fyrir öflugari fyrirtæki. Hver eru þau? Fyrir liggur að fyrirtækið sóttist eftir aðstöðu fyrir starfsemi sína í Kanada, en fékk ekki leyfi frá stjórnvöldum. Hvaða sjónarmið lágu þar að baki? Um þetta var m.a. fjallað í Dagfara, tímariti Samtaka hernaðarandstæðinga sem kom út seint á síðasta ári.