Segja hagnað Reykjanesbæjar „fyrirsagnafiff í fjölmiðlum“
Hagnaður sá er Sjálfstæðismenn í Reykjanesbæ hafa kynnt í tíu mánaða árshlutauppgjöri er ekkert annað en „fyrirsagnafiff í fjölmiðlum“ að mati bæjarfulltrúa A-listans. Þeir segja allt tal um viðsnúning sýndarmennsku eina til að rugla fólk í ríminu og beina sjónarhorninu frá eiginlegri stöðu sveitarfélagsins. A-listin segir umræddan hagnað ekki fjármuni sem hægt sé að nýta í rekstur bæjarins heldur eingöngu reiknaðan, bókhaldslegan hagnað.
Þetta er á meðal þess sem kemur fram í bókun sem A-listinn lagði fram á bæjarstjórnarfundi í gær. Í henni er fullyrt að Sjálfstæðismönnum sé algerlega fyrirmundað að reka sveitarfélagið með tekjuafgangi nema til komi verulegar tekur af óreglulegri starfsemi, s.s. sölu fasteigna og er bent á söluna í HS Orku í því sambandi.
Bókunin er annars svohljóðandi:
„Fyrirsagnafiff í fjölmiðlum
-Bókun A- listans vegna endurskoðaðrar fjárhagsáætlunar 2009 lögð fram í bæjarstjórn Reykjanesbæjar þriðjudaginn 1. desember 2009.
Því miður er sá viðsnúningur í rekstri bæjarsjóðs sem talað er um á heimasíðu Reykjanesbæjar sýndarmennskan ein. Ekki hefur orðið nokkur viðsnúningur í rekstri sveitarfélagsins heldur þvert á móti. Sjálfstæðismönnum virðist algerlega fyrirmunað að reka sveitarfélagið með tekjuafangi nema til komi verulegar tekjur af óreglulegri starfsemi s.s af sölu fasteigna eða sölu hlutabréfa eins og nú er raunin með sölu á eignahlut sveitarfélagsins í HS Orku fyrir rúma 13 milljarða króna. Frétt eins og sú sem birtist á heimasíðu þeirra sjálfstæðismanna undir fyrirsögninni „Viðsnúningur í rekstri Reykjanesbæjar” er eingöngu til þess fallin að rugla fólk í ríminu og færa sjónarhornið frá eiginlegri stöðu sveitarfélagsins. Þessi meinti hagnaður sem sagt var frá í Víkurfréttum í síðustu viku er eingöngu reiknaður bókhaldslegur hagnaður en ekki fjármunir sem hægt er að nýta við rekstur bæjarsjóðs á þessu ári. Stærstum hluta þeirrar upphæðar eða um 6 milljörðum verður ekki einu sinni ráðstafað af næstu bæjarstjórn heldur í fyrsta lagi af þar næstu. Nema að búið verði að eyða því öllu fyrirfram með hallarekstri.
Á þessu ári má gera ráð fyrir rúmur 1,8 milljarður komi inn í bæjarsjóð vegna sölu eignahlutar í HS Orku. Þeim fjármunum hefur hins vegar öllum verið ráðstafað til þess að standa undir hallarekstri ársins.
Við nánari athugun á endurskoðaðri fjárhagsáætlun kemur í ljós að halli bæjarsjóðs af reglulegri starfsemi verður að lágmarki rúmir 3 milljarðar króna. Og þá hefur ekki verið tekið tillit til margra reiknaðra liða eins og breytinga á lífeyrisskuldbindingum eða afskrifta. Rétt er að draga frá tekjulið undir heitinu “Ýmsar tekjur” að upphæð kr. 370 milljónir. Þessi tekjuliður var eingöngu búin til svo að ekki yrði halli á fjárhagsáætlun fyrir árið 2009, því óheimilt er að setja fram áætlanir sveitarfélaga með halla. Því er rétt að leiðrétta þetta í endurskoðun, þrátt fyrir að sjálfstæðismenn geri enga tilraun til þess.
Tekjur: 7.458.030
Gjöld: 8.325.840
Tap fyrir fjármagnsliði: -867.810
Fjármagnsliðir neikvæðir: 1.903.000
Tap af reglulegri starfsemi: 2.770.810
Frádregnar óreglulegar tekjur: 370.000
Samtals tap af reglulegri starfsemi: 3.140.810
Óreglulegir liðir:
Söluh. hlutabréfa í HS Orku: 11.500.000
Fjármagnsgjöld: 1.725.000
Hagnaður af óreglulegum liðum: 9.775.000
Rekstrarniðurstaða skv. endurskoðun: 7.004.190
Sú tekjuaukning upp á tæpar 500 milljónir sem kemur fram í endurskoðaðri fjárhagsáætlun stafar mest megnis af auknum framlögum frá ríkissjóði s.s. í gegnum jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Gjöld skv. endurskoðaðri fjárhagsáætlun aukast hins vegar talsvert meira eða um einn milljarð króna. Þar af hafði bæjarráð fjallað um og samþykkt hækkun fyrir rúmar 300 milljónir. Hækkun á húsaleigu skýrir einnig verulega aukin útgjöld og er nú svo komið að sveitarfélagið greiðir rúmar 100 milljónir í húsaleigugreiðslur á mánuði.
Þegar skoðað er yfirlit um áætlað sjóðsstreymi kemur í ljós að handbært fé til rekstrar sem gert var ráð fyrir að yrði jákvætt um 412 milljónir er skv. endurkoðaðri áætlun orðið neikvætt um tæpar 1.700 milljónir. Það staðfestir það sem áður hefur verið haldið fram að reglubundinn rekstur sveitarfélagsins er í molum og getur engan veginn staðið undir sér. Fyrirsagnafiff í fjölmiðlum lagar ekki þá stöðu og dugar ekki til þess að bæta þjónustu við íbúa Reykjanesbæjar né heldur sú aðferð að færa fjármuni úr einum vasa yfir í annan. Og sú aðferð mun hvorki duga eftirlitsaðilum né íbúum sveitarfélagsins.“