Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

 Segja eitt fyrirtæki í Garði geta misst 1.280 tonn nái kvótafrumvörp fram að fullu
Fimmtudagur 23. júní 2011 kl. 10:22

Segja eitt fyrirtæki í Garði geta misst 1.280 tonn nái kvótafrumvörp fram að fullu

Meirihlutinn í bæjarstjórn Garðs lagði fram ályktun um sjávarútvegsmál á bæjarstjórnarfundi í Garði síðdegis í gær.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


„Aldrei áður hefur jafn breið sátt um sjávarútvegsmál náðst fram eins og starfshópur um stjórn fiskveiða skilaði af sér í byrjun hausts.


Í hópnum áttu sæti 18 fulltrúar allra þingflokka, sveitarfélaga og allir hagsmunahópar í sjávarútvegi. Útvegsmenn stærri og minni báta, sjómannasamtökin, fiskverkendur og fiskverkafólk. Starfshópurinn lagði til samningaleið í sjávarútvegi, sátt sem allir gátu sætt sig við nema ríkisstjórn Íslands og stuðningsmenn hennar sem lagt hafa fram tvö frumvörp um stjórn fiskveiða sem munu koma harkalega niður á íslensku þjóðinni þar sem arðsemi og þjóðhagslegri hagkvæmni er varpað fyrir róða.


Bæjarstjórn Garðs telur markmiðin með frumvörpunum auka skattlagningu á sjávarbyggðir og taka veiðiheimildir af þeim fyrirtækjum sem með ærnum kostnaði hafa keypt kvóta til uppbyggingar fyrirtækja sinna. Skapa þarf eðlilegt umhverfi í framsali aflaheimilda og beina í auknu mæli fiski á fiskmarkaði innanlands og auka þannig möguleika minni báta og fiskverkenda til eflingar atvinnulífs í sjávarplássum.


Í Garði gæti eitt fyrirtæki misst 1.280 tonn af kvóta sínum nái frumvörpin fram að fullu eða um 16% allra aflaheimilda þess. Því verður seint trúað að þingmenn okkar samþykki slík lög sem flytja kvóta frá Garði til annarra byggðarlaga. Það mun hafa í för með sér alvarlega fækkun starfa og fólksfækkun í samfélaginu.


Bæjarstjórn Garðs skorar á Alþingi Íslendinga að vega ekki að hagsmunum sjávarbyggða með þessum hætti, heldur hafa það að markmiði við endurskoðun þeirra reglna sem gilda í sjávarútvegi að þær styrki greinina í heild sinni og skapi hvata til þess að hámarka verðmæti, draga úr framleiðslukostnaði og auka þar með arðsemi og tekjur þjóðarbúsins.


Þannig skapast svigrúm fyrir greinina til að greiða góð laun til starfsmanna allt árið, greiða hærri gjöld til sveitarfélaganna og hins opinbera til að sinna rannsóknum og þróun og auka enn frekar verðmæti íslenskra sjávarafurða. Bæjarstjórn Garðs skorar á Alþingi að endurskoða ákvörðun sína og kynna sér vandlega afleiðingar frumvarpsins á greinina og þeirra fyrirtækja sem verst fara út úr þeirri skerðingu sem áætluð er í frumvarpinu,“ segir í ályktun meirihlutans. Ályktunin er samþykkt með fjórum atkvæðum D-listans en fulltrúar minnihlutans sitja hjá við afgreiðslu málsins.


Eftirfarandi var bókað við ályktun meirihlutans. „N-listinn, sem er þverpólitískt afl allra stjórnmálaflokka, telur mikilvægt að sátt náist meðal þjóðarinnar um nýtingu sjávarauðlinda. Kvótakerfið hefur lengi verið umdeilt og ber að fagna allri skoðun á því. Forðumst hræðsluáróður í þeirri vinnu. Nú er sögulegt tækifæri til réttlátra breytinga og hvetur N listinn til þess að vinnan við þær gangi fljótt eftir svo óvissu í rekstrarumhverfi sjávarútvegsfyrirtækja ljúki sem fyrst“.