Segja atvinnuástand í Sandgerði grafalvarlegt
Fulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í Sandgerði lögðu fyrir síðasta fund bæjarráðs að atvinnu- og hafnaráði verði skipt upp í tvö ráð. Í bókun Guðmundar Skúlasonar, fulltrúa B-lista, segir:
„Bæjarfulltrúar B- og D- lista eru ekki sammála þeirri ákvörðun meirihluta bæjarstjórnar að atvinnu- og hafnarráð sé ein nefnd. Rúmt ár er síðan ráðin voru sameinuð og hafa fundargerðir nánast eingöngu fjallað um hafnarmál, enda málefni hafnarinnar mjög viðamikil og eðlilegt að sá málaflokkur sé undir nefnd.
Atvinnuástand í Sandgerði er grafalvarlegt. Atvinnuleysi er komið yfir 15% og slæmar horfur í atvinnumálum. Í ljósi þessarar stöðu teljum við bæjarfulltrúar B- og D- lista nauðsynlegt að sett verði á laggirnar atvinnuráð sem mótar atvinnustefnu fyrir bæjarfélagið. Leita þarf allra leiða til að fjölga atvinnutækifærum og nýta sem best það sem fyrir er.
Hólmfríður Skarphéðinsdóttir, sign.
Guðmundur Skúlason, sign.“
Ólafur Þór Ólafsson fulltrúi S- lista, sem fer með meirihlutann í Sandgerði, lagði fram eftirfarandi bókun:
„S- listinn tekur undir áhyggjur B- og D- lista af stöðu atvinnumála í Sandgerðisbæ og þá skoðun að þar sé verk að vinna. Meðal þess sem þarf að gera er að móta atvinnustefnu fyrir bæjarfélagið þar sem m. a. þarf að taka tillit til aukins samstarfs sveitarfélaga á Suðurnesjum í atvinnumálum.
Leiðin að auknum krafti í avinnumálum felst hins vegar ekki í því að skipta upp atvinnu- og hafnarráði og auka þar með kostnað við stjórnsýslu Sandgerðisbæjar og því greiða fulltrúar S- listans atkvæði gegn tillögunni.
Ólafur Þór Ólafsson, sign.
Sigursveinn B. Jónsson, sign.“
Tillaga B- og D-lista var felld með tveimur atkvæðum S- lista gegn einu atkvæði B- lista.