Segir mengun ekki koma á óvart
- Vill íbúafund um Helguvík í jólagjöf
„Mengun frá kísilveri United Silicon í Helguvík undanfarnar tvær vikur hefur ekki komið mér á óvart sökum þess að kísilverið er nánast inni í bæjarfélaginu,“ segir Dagný Alda Steinsdóttir, nýkjörinn varaformaður Náttúrusamtaka Suðvesturlands og varabæjarfulltrúi í Reykjanesbæ. Hún var í hópi fólks sem safnaði undirskriftum íbúa í Reykjanesbæ í fyrra sumar fyrir íbúakosningu um kísilver Thorsil sem áætlað er að rísi við hlið kísilvers United Silicon eftir tvö ár. Dagný segir ljóst að íbúar hafi ekki verið undirbúnir undir svo mikla mengun frá kísilverinu, enda sýni umræðan að fólk sé hrætt, sérstaklega í ljósi þess að sá ofn sem nú hefur verið kveikt upp í sé sá fyrsti af fjórum hjá United Silicon. Fjórir til viðbótar bætast svo við þegar kísilver Thorsil hefur starfsemi. „Í skýrslum um kísilverin tvö stendur að í þeim verði tæknihreinsibúnaður eftir bestu fáanlegu tækni. Ég tel það mjög teygjanlegt hugtak og eitthvað sem við ættum að líta á gagnrýnum augum. Búnaðurinn virðist hafa brugðist algerlega síðustu vikur.“
Telur undirskriftir alltaf hafa áhrif
Dagný og félagar hennar í samtökunum Helguvík - njótum vafans söfnuðu í fyrra 2800 undirskriftum um íbúakosningu um breytingu á deiliskipulagi í Helguvík, sem gerð var svo hægt yrði að reisa kísilver Thorsil. Rafræn íbúakosning fór fram í nóvember og desember en bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ tilkynntu að niðurstaðan yrði ekki bindandi heldur aðeins ráðgefandi. Aðeins 8,71 prósent kosningabærra íbúa í Reykjanesbæ tóku þátt í kosningunni og var naumur meirihluti, eða 50,4 prósent, hlynntur breytingu á deiliskipulagi í Helguvík og þar með uppbyggingu á kísilveri Thorsil. Dagný segir ferlið hafa verið mikil vonbrigði. „Það hefði átt að leyfa íbúum að njóta lýðræðisins og kjósa í bindandi kosningu. Þá tel ég að mikill meirihluti hefði kosið gegn kísilveri. Ef kosið yrði aftur í dag þá tel ég alveg ljóst hver niðurstaðan yrði. Fólk myndi kjósa gegn stóriðjunni nú þegar veruleikinn blasir við.“
Núna stendur yfir undirskriftasöfnun á vefnum þar sem skorað er á bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ og á Umhverfisstofnun að gefa ekki út starfsleyfi til kísilvers Thorsil en fram til 2. janúar 2017 verður auglýst eftir athugasemdum við veitingu þess. Dagný telur að slíkar undirskriftasafnanir hafi alltaf áhrif. „Ef fimm þúsund manns í Reykjanesbæ segja með undirskrift sinni að þetta vilji þeir ekki þá hlýtur það að hafa áhrif en hvað verður hægt að gera, veit ég ekki. Bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ hafa lagt áherslu á góða stjórnsýslu og að mínu mati mætti auka þrýstinginn á Umhverfisstofnun.“ Taki stofnunin tæki hann til sín myndi það færa bæjaryfirvöldum sterkari vopn í hendur. Þá segir hún áríðandi að bæjarfélagið þrýsti á Umhverfisstofnun að koma upp fleiri mælum í íbúabyggð. Þegar hafa verið settir upp þrír; við Mánagrund, í Helguvík og í Leiru. „Mælarnir eru staðsettir á svokölluðu „þynningarsvæði“ þar sem viðmiðunarmörk eru hærri en ef mælarnir væru fyrir utan þess svæðis, til dæmis í byggð þar sem viðmiðunarmörkin eru lægri. Til að vernda íbúa bæjarins frá mengun væri vænlegra að staðsetja mæla nær byggð. Umhverfisstofnun getur farið fram á fleiri mælitæki á kostnað kísilversins. Það er ekki líklegt að Umhverfisstofnun geri það nema að bæjaryfirvöld óski þess sérstaklega.“
Vill íbúafund í jólagjöf
Í umsóknarferli sínu skilaði United Silicon inn mengunarspá eða loftdreifilíkani sem sagt var unnið af COWI, alþjóðlegu dönsku fyrirtæki. Síðar bárust þær upplýsingar frá COWI að það hefði ekki unnið líkanið. Dagný segir það vekja upp ýmsar spurningar. „Mér finnst skrítið að Umhverfisstofnun hafi tekið mark á loftdreifilíkaninu. Ég veit reyndar ekki hvort það er rétt unnið eða ekki en þykir skrítið að tekið hafi verið mark á því þegar vafi leikur á upprunanum.“
Í jólagjöf óskar Dagný sér þess að haldinn verði íbúafundur núna í byrjun desember þar sem fulltrúar Reykjanesbæjar, Umhverfisstofnunar og United Silicon sitji fyrir svörum. „Í framhaldi af því vona ég að bæjarstjórn taki til umfjöllunar þann möguleika að fresta frekari samningum við Thorsil eða þar til meiri reynsla verður komin á framleiðslu kísilversins sem tók til starfa á dögunum.“ Hún segir ljóst að bæjaryfirvöldum beri að hlýta lögum varðandi samninga við stóriðju í Helguvík en að heilsusamlegt umhverfi sé mikilvægara en allar reglugerðir í nútíma samfélagi.