Segir litlar líkur á að 15 hektara gróðurhús rísi í Grindavík
Litlar líkur eru á að að hollensk fyrirtæki muni byggja risastórt gróðurhús í nágrenni Grindavíkur til ræktunar á tómötum sem það ætlar að flytja til Bretlands, að mati Magnúsar Ágústssonar, garðgarðræktarráðunautar hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins.
Hann segist í samtali við Bændablaðið þetta vera skýjaborgir hjá Hollendingunum. Honum finnst verst ef Grindvíkingar verði plataðir til að fara út í framkvæmdina.
Það er hollenska fyrirtækið Esbro sem lýst hefur yfir áhuga á að allt að 15 hektara gróðurhús í nágrenni Grindavíkur, nánar tiltekið skammt frá golfvellinum og rækta þar tómata til útflutnings. Kostnaður gæti numið allt að 6,5 milljörðum króna og um 125 ný störf orðið til. Samningar standa yfir á milli forsvarsmanna Esbro og birgja í Bretlandi um sölu á tómötunum.
Ástæða þess að fyrirtækið lítur til Íslands er græn og ódýr orka, hér er starfsfólk fyrir hendi en talið er að tómatagróðurhúsið veiti um 125 manns atvinnu. Lagði fulltrúi EsBro áherslu á að um spennandi störf væri að ræða í hátækni gróðurhúsum. Grindavík varð fyrir valinu þar sem samgöngur eru góðar og gott aðgengi að orku. Vitað er að forráðamenn Golfklúbbs Grindavíkur hafi ekki verið upprifnir af þessum nýja hugsanlega nágranna við golfperlu þeirra í hrauninu.
Í Bændablaðinu er rifjað upp að fyrir tveimur árum var undirritaður samningur milli Orkuveitu Reykjavíkur og Geogreenhouse ehf um uppbyggingu á stóru ylræktarveri til tómataframleiðslu í nágrenni Hellisheiðarvirkjunar. Um áþekkt verkefni var að ræða og hjá Esbro. Ekkert varð úr þeim framkvæmdum.
Hér má sjá teikningu af skipulagi svæðisins þar sem gróðurhúsið er hugsað.