Segir Hallgrím Helgason særandi og tilfinningalausan
Jóhann Friðrik Friðriksson, forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, sendir Hallgrími Helgasyni rithöfundi tóninn í færslu á fésbókinni um helgina. Hallgrímur vill hafa Leifsstöð opna fyrir burtþyrstan landann, og leyfa honum að spranga um salina, láta leita á sér, taka einn öllara, spjalla og skella sér svo í Fríhöfnina, svo vitnað sé í færslu Hallgríms.
Þetta skrifaði Hallgrímur:
Hugmynd í Kófinu, um leið og Víðir leyfir: Hafa Leifsstöð opna fyrir burtþyrstan landann, og leyfa honum að spranga um salina, láta leita á sér, taka einn öllara, spjalla og skella sér svo í Fríhöfnina. Hún væri í raun aðal-attraksjónin í þessu dæmi, og verðið yrði lækkað þar enn meir til að draga að. Eða jafnast eitthvað á við það að versla áfengi drukkinn? Vopnaleitinni yrði breytt í lottó, allir fengju miða í vasann við innganginn og einn af hverjum þúsund miðum myndi svo bípa í hliðinu við mikinn fögnuð. Stemmningin yrði mikið stuð, allir hressir og brandararnir kæmu sjálfkrafa. "Ha-æ. Hvert eruð þið að fara?!" Á fimmtudögum væri svo menningarveisla, tónleikar og upplestrar. Það er reynsla mín að Íslendingum finnst í raun fallegasti staður landsins vera Leifsstöð, þar líður þeim best, enda sést það, við erum alltaf svo glöð þar. Þar er fólk annaðhvort að koma heim til landsins sem það elskar eða fara burt frá landinu sem það hatar. Held að fólk langi alltaf í Leifsstöð, líka þótt engin séu flugin. Til að auka stemmningu yrðu svo tilkynningar í kallkerfi um að þessi eða hinn væri nú búinn með tímann sinn, fólk væri kallað upp úr eins og í sundinu í den. "Farþegi á leið til Amsterdam, djók, Anna Björk Ingimarsdóttir, gjörðu svo vel að hafa samband við afgreiðslu." Svo er þetta allt saman atvinnuskapandi og íslenska kiljumarkaðnum yrði bjargað. Þetta myndi að auki redda rútufyrirtækjunum því enginn gæti ekið heim... Ég er líka kominn með nafnið á þetta: Lukkustund í Leifsstöð - Happy Hour in Leifsstöð.
Forseta bæjarstjórnar Reykjanesbæjar var ekki skemmt yfir færslu Hallgríms og sendir honum tóninn og segir frumhlaupið vera Hallgrími til skammar.
„Kæri Hallgrímur.
Mér er ekki skemmt. Hundruðum starfsmanna hefur verið sagt upp í FLE eða eru í skertu starfshlutfalli. Allur húmor hefur sinn tíma og er vand með farinn. Ég verð að segja að ég upplifi skrif þín sem særandi og tilfinningalaus. Kannski er ég viðkvæmur en það verður þá bara að vera svo. Þetta frumhlaup er þér til skammar og væri þér hollast að nýta listamannalaunin til uppbyggilegri skrifa,“ skrifar Jóhann Friðrik Friðriksson, forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar á fésbókina.