Segir Fasteign ekki greiða verktökum
Verktakar og undirverktar hafa átt í vandræðum með að fá greiðslur frá Fasteign ehf og blasir gjaldþrot við einhverjum þeirra af þeim sökum. Þetta fullyrti Guðbrandur Einarsson, bæjarfulltrúi A-lista, á bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ á þriðjudaginn. Árni Sigfússon, bæjarstjóri, sem jafnframt er stjórnarmaður í Fasteign, vísar þessu á bug.
Á bæjarstjórnarfundinum spurði Guðbrandur bæjarstjóra hvort hann, sem stjórnarmaður í Fasteign, hefði heimild til að upplýsa um stöðu félagsins. Ástæðuna fyrir fyrirspurninni kvað Guðbrandur vera að ýmsir aðilar á verktakamarkaði hefðu haft samband og kvartað yfir því að fá ekki greitt það sem þeir ættu inni hjá Fasteign ehf.
Guðbrandur sagði það liggja fyrir að byggingar- og fasteingafélög á markaði, s.s Portus og Nýsir hefðu farið mjög illa í kreppunni og ekki getað staðið við það sem þau ætluðu sér.
„Aðilar sem reka hér verktakafyrirtæki hafa lýst því yfir í mín eyru að við blasi gjaldþrot hjá þeim vegna þess að þeir eigi inni verulega fjármuni sem Fasteign átti að borga. Þessir aðilar þurftu að leggja fram tryggingar til að standa við tímafaktora í útboðum en Fasteign virðist ekki hafa þurft að leggja fram neinar tryggingar fyrir greiðslum til þessara aðila,“ sagði Guðbrandur í pontu.
Í svari Árna Sigfússonar kom fram að félögin sem Guðbrandur nefndi væru rekin með ólíkum hætti. Sjóðstreymi Fasteingar væri mjög sterkt enda hver einasti fermetri sem félagið leigði út leigður af mjög öruggum, opinberum aðilum. Mjög stór hluti af eignum Nýsis væri ekki í útleigu. Félagið þyrfti að bera það uppi og hefði ekki leigutekjur á móti. Auk þess hafi Nýsir tekið að sér rekstur í húsum sem ekki hafi gengið upp.
Árni gat þess að kannaður hefði verið möguleiki á því að Fasteign tæki yfir ýmsar eignir frá Nýsi, sem gæfi ekki til kynna að Fasteign stæði illa. Hins vegar væri framundan endurfjármögnun félagsins á vormánuðum og því hlytu menn að velta því fyrir sér hvernig staðan yrði þá og hvaða möguleika félagið hefði á endurnýjun lána.
„Staða Fasteignar og sjóðstreymi er sterk og það kemur mér á óvart ef rétt er, Guðbrandur, að það sé fjöldi fyrirtækja sem ekki er að fá greitt. Ég held að við þurfum að fara mjög varlega í svona fullyrðingu. Ég reyndar þekki nokkur fyrirtæki sem hafa fengið greiðslur seinna er gert var ráð fyrir en um leið hefur verið sagt að Fasteign sé nánast eini aðilinn sem er að greiða…Ég þekki til einhverja tafa en að menn geti vísað til þess að þeir séu að fara á hausinn af því að Fasteign sé ekki að greiða sitt, við skulum þá bara fara nákvæmlega ofan í það, en þetta eru ansi stórar yfirlýsingar. Ég held að slíkir aðilar ættu að fara varlega í segja þér slíkar fréttir vegna þess að ég fullyrði að það getur ekki staðist,“ sagði Árni í svari sínu til Guðbrands.
VFmynd/elg: Frá bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ. Guðbrandur Einarsson í pontu, Árni Sigfússon hlýðir á.