Segir ekki koma til greina að eyða fé í rannsóknarrétt
„Reykjanesbær stendur nú frammi fyrir hagræðingaraðgerðum er snerta hag starfsmanna og bæjarbúa allra og neyðist til að draga úr kostnaði vegna alvarlegra tafa við tekjuöflun af nýjum atvinnuverkefnum. Því kemur ekki til greina að eyða fé í rannsóknarrétti,“ segir Baldur Guðmundsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, í bókun sem hann lagði fram á bæjarstjórnar í Reykjanesbæ í gær.
Tilefni bókunar Baldurs var tillaga Samfylkingar þess efnis að skipuð yrði nefnd þriggja óháðra sérfræðinga til að gera úttekt á stjórnkerfi og stjórnsýslu Reykjanesbæjar. Aðalverkefni nefndarinnar yrði m.a. að kanna stjórnsýslu bæjarins og aðkomu stjórnmálamanna að fjárhagslegum ákvörðunum á undanförnum árum með tilliti til þess hvort gætt hafi verið eðlilegrar hlutlægni og heiðarleika í þeim afskiptum. Einnig hvort einstakir aðilar eins og verktakar, bankar og fyrirtækjasamsteypur hafi fengið óeðlilega fyrirgreiðslu og hvort fjársterkir aðilar hafa beint eða óbeint haft áhrif á pólitískar ákvarðanir og stjórnsýslu bæjarins. Þá yrði kannað hvort fjársterkir aðilar hafi hagnast á tengslum við bæinn og einstaka embættismenn eða bæjarfulltrúa. Einnig hvort einstakir embættismenn, bæjarfulltrúar eða frambjóðendur til bæjarstjórnar hafi hagnýtt sér persónulega eða í þágu síns flokks tengsl við fjársterka aðila sem hafa átt í viðskiptum
við bæinn.
Bæjarfulltrúar Sjálfstæðismanna felldu tillöguna með sjö atkvæðum gegn þremur atkvæðum Samfylkingarinnar. Kristinn Þór Jakobsson, bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins, sat hjá.
Baldur Guðmundsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, lagði fram bókun þar sem hann segir stjórnsýslu sveitarfélaga mun opnari en í ríkistjórn þar sem í bæjarráði eigi sæti fulltrúar alla flokka sem hlotið hafi kjör í sveitarstjórnarkosningum. Bæjarráðsmenn hafi því getað spurt um alla þætti ákvarðana.
„Reykjanesbær stendur nú frammi fyrir hagræðingaraðgerðum er snerta hag starfsmanna og bæjarbúa allra og neyðist til að draga úr kostnaði vegna alvarlegra tafa við tekjuöflun af nýjum atvinnuverkefnum. Því kemur ekki til greina að eyða fé í rannsóknarrétti. Þó ný forysta Samfylkingar í Reykjanesbæ treysti ekki fyrri forystu Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ til að hafa fylgst með bæjarmálunum finnst okkur ómaklega að þeim vegið með þessari tillögu.
Einhæfur og neikvæður fréttaflutningur grefur undan trúverðugleika sveitarfélagsins og torveldar vinnu við brýna fjármögnun í algjörlega stöðnuðu atvinnuástandi. Með tillögunni er því miður lögð höfuðáhersla á að ala á slúðrinu og ræsa út fleiri á nornaveiðarnar. Þar er nægur fjöldi fyrir og köllum við eftir öðrum hugmyndum Samfylkingarinnar til uppbyggingar atvinnutækifæra,“ sagði m.a. í bókun Baldurs.
VFmynd/Hilmar – Frá 3ja tíma átakafundi í bæjarstjórn Reykjanesbæjar í gær.