Securitas gefur Fjölskylduhjálp þjófavarnarkerfi
Fjölskylduhjálp Íslands á Reykjanesi er komin með fullkomna þjófavörn frá Securitas en fyrirtækið setti upp þjófavarnarkerfi í húsakynnum hennar, henni að kostnaðarlausu.
Eins og greint var frá fyrr í vetur var brotist inn í starfsstöð Fjölskylduhjálparinnar í Reykjanesbæ og stolið tölvu og barnafatnaði auk þess sem skemmdir voru unnar á húsnæðinu. Það hefur ekki verið upplýst.
Yfirlýst hlutverk Fjölskylduhjálparinnar er að reyna að hjálpa öllum þeim sem minna mega sín, hvort sem það eru öryrkjar, atvinnulausir, einstæðar mæður eða feður, eldri borgarar, fátækar fjölskyldur eða einstæðingar.
Aðstoðin er í formi úthlutunar á mat og úr lyfjasjóði og sölu á ódýrum fatnaði.