SBK bauð lægst í akstur til og frá flugstöðinni
SBK ehf. bauð lægst í akstur til og frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar, en niðurstöður í útboði Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum (SSS) liggja nú fyrir. VSÓ Ráðgjöf hefur að beiðni SSS yfirfarið tilboð sem bárust í aksturinn. Alls bárust eftirfarandi tilboð frá sex bjóðendum:
Þingvallaleið ehf. - Netbus Iceland Ltd. 50,0%
Kynnisferðir ehf. 63,4%
SBK ehf. 38,3%
Bílar og fólk ehf. 38,5%
Hópbílar hf. 59,0%
Iceland Excursions Allrahanda ehf. 93,0%
Staðfest er að tilboð frá SBK ehf. í hlutfallslega þóknun af fargjaldi er lægst. Áður en tilboð frá SBK ehf. verður endanlega samþykkt er ráðlegt að tilkynna öllum bjóðendum ákvörðun um val á því tilboði. Frá því að sú ákvörðun er tilkynnt bjóðendum er ráðlegt að bíða í a.m.k. tíu daga þar til tilboð eru endanlega samþykkt, segir í fundargerð SSS frá síðasta fimmtudegi.
Eignarhald og tengsl bjóðenda
SSS telur rétt að benda á augljós eignatengsl tveggja bjóðenda sem buðu í þetta verkefni. Samkvæmt upplýsingum sem fram koma í gögnum bjóðenda eiga Kynnisferðir ehf. lægstbjóðanda, SBK ehf., að fullu. Í stjórn þessara fyrirtækja sitja sömu einstaklingar og einnig er ljóst af samskiptum á tilboðsferlinu að sami einstaklingur eða einstaklingar hafa unnið að gerð tilboða þessara aðila. Það er því álitamál hvort unnt sé að líta á þessi fyrirtæki sem einn og sama aðila með tilliti til þessa útboðs.
Kynnisferðir ehf., eigandi lægstbjóðanda, hafa haldið uppi kærum vegna þessa útboðs bæði til Kærunefndar útboðsmála og Samkeppniseftirlitsins. Jafnframt hafa Kynnisferðir ehf. gefið til kynna að þeir muni halda áfram akstri á þessari leið þótt þeir hreppi ekki samning um verkefnið. Það hlýtur því að vakna spurning um það hvort tengsl séu milli þessarar afstöðu Kynnisferða ehf. og tilboðs lægstbjóðanda.
Fyrir liggur að hagstæðasta boð er frá SBK ehf. Að mati VSÓ Ráðgjafar er þó rétt að kanna rækilega hvort tengsl séu milli tilboðs SBK ehf. og afstöðu Kynnisferða ehf., eiganda SBK ehf.
Næst hagstæðasta tilboðið er frá Bílum og fólki ehf.
Lagt er til að könnuð séu áhrif eignatengsla milli SBK ehf. og Kynnisferða ehf. og hvaða áhrif þau geta haft á samningsgerð og mögulega framkvæmd samnings.
Lagt er til að SSS staðfesti ofangreint val tilboðs með fyrirvara um áhrif eignatengsla og feli VSÓ Ráðgjöf í samráði við framkvæmdarstjóra SSS að tilkynna bjóðendum þá ákvörðun.
Jafnframt verði framkvæmdastjóra SSS falið að ganga til samninga við SBK ehf. fyrir hönd SSS á grundvelli útboðs- og samningsskilmála og tilboðs SBK ehf.
Stjórn Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum hefur samþykkt framangreindar tillögur og falið framkvæmdastjóra að fylgja málinu eftir.