Saug hvítt efni upp í nefið undir stýri
- Kannabisræktun stöðvuð í kjölfar hefðbundins eftirlits.
	Lögreglan á Suðurnesjum stöðvaði kannabisræktun í húsnæði í umdæminu í gær. Upphaf málsins var að rúmlega tvítugur karlmaður var stöðvaður í akstri við hefðbundið eftirlit. Hann framvísaði fjórum grömmum af kannabisefni, en var flóttalegur og svör hans ótrúverðug þegar spurt var nánar út í ferðir hans og uppruna efnanna.
	Að fenginni heimild var leitað í húsnæði því sem maðurinn leigir og fundust þar nær fjörutíu kannabisplöntur. Hann játaði ræktunina og haldlagði lögregla bæði plönturnar og munina sem notaðir voru við ræktunina.
	Annar karlmaður á svipuðum aldri var svo handtekinn í öðru máli, þar sem hann var að sjúga hvítt efni upp í nefið þar sem hann sat undir stýri. Um var að ræða amfetamín og var hann handtekinn. Við öryggisleit fannst svo amfetamín í fórum hans.
	Lögreglan minnir á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.
				
	
				

 
	
			


 
						 
						 
						 
						 
						 
						

 
				 
				 
				 
				 
				
 
				 
				 
				 
				