Sáttur við kvótaaukningu: Moka upp fiski útaf Garðskaga
Þorsteinn Erlingsson skipsstjóri, formaður Útvegsmannafélags Suðurnesja, kveðst vera mjög sáttur við þá ákvörðun sjávarútvegsráðherra að auka þorskkvótann um 30.000 tonn á yfirstandandi fiskveiðiári. Þetta þýði meðal annars að það takist að veiða meira af öðrum tegundum og vertíðin muni standa lengur en ella.
Aukinn þorskkvóti þýði aukna vinnu til sjós og lands og tryggi landvinnslu, sem kaupir hráefni á fiskmarkaði, meira framboð á fiski. Þorsteinn sagist vonast til að enn yrði aukið í þorskkvótann á næsta kvótaári og sagðist vilja sjá að lágmarki 200.000 tonna árlegan þorskkvóta. Aukningin komi einnig víða til með að geta tryggt vinnu í sjávarútvegi og fiskvinnslu allt árið.
Aðspurður um loðnuvertíðina sagðist Þorsteinn vonast til þess að hún hæfist af krafti þegar loðnan verður gengin upp á landgrunnið síðar í febrúar. Markaður fyrir loðnuafurðir til manneldis er góður og þarf um 200.000 tonn til að uppfylla hann. Þess ber að geta að loðnan drepst eftir hrygningu. Nú vilji hann hins vegar fá þær fréttir frá sjávarútvegsráðherra að hafnar verði hvalveiðar af fullum krafti. Hvalurinn éti 1,5 milljónir tonna af loðnu á ári, loðnu sem sé mikilvæg fæða fyrir fiskistofna í sjónum við Ísland. Hvalurinn er vannýtt tegund.
Þorsteinn sagði að fiskirí hjá Suðurnesjabátum sé búið að vera ótrúlega gott miðað við fyrri ár. Mikil veiði sé útaf Garðskaga og sérstaklega hafi netabátar verið að gera það gott. Veiðin sé framar vonum og meiri en menn eiga að venjast í miðjum janúarmánuði.