Sátt um víkingaskipið Íslending
Jóhann Geirdal, oddviti Samfylkingarinnar í bæjarstjórn Reykjanesbæjar, segir að samstaða hafi verið um það í bæjarstjórn að fara í viðræður um að fá víknigaskipið Íslending til bæjarins. Málið verður lagt fyrir bæjarráð Reykjanesbæjar á morgun. Víkingaskipið Íslendingur er væntanlegt til landsins í september en það hefur verið í geymslu nálægt New York í Bandaríkjunum í nærri 2 ár. Að frumkvæði Reykjanesbæjar verður skipinu komið fyrir í Njarðvík og vonast er til að ferðamenn leggja leið sína þangað til að skoða skipið eins og greint var frá í gær. Heildarverkefnið kostar um 60 miljónir króna. Mestur hluti peninganna kemur frá fyrirtækjum sem færa niður viðskiptakröfur sínar á hendur Íslendingi. Einnig koma ný fyrirtæki að með fjármagn í verkefnið en alls standa um 20 fyrirtæki að verkefninu. Ríkið leggur tæpar 20 miljónir króna til verkefnisins og kemur sú upphæð af fjárlagalið Landafundarnefndar, segir í frétt Ríkisútvarpsins í dag.