SAR skorar á stjórnvöld, Landsnet og Sveitarfélagið Voga
Aðalfundur Samtaka atvinnurekenda á Reykjanesi, SAR, var haldinn síðastliðinn föstudag. Mikil og hvöss umræða skapaðist vegna tafa á Suðurnesjalínu II, og hættunnar á að uppbygging á svæðinu muni stöðvast innan fárra ára ef ekki verði byrjað strax á lagningu línunnar, segir í tilkynningu frá fundinum.
Stofnaður var starfshópur undir forystu Guðbergs Reynissonar til þess að komast til botns í hvað tefur og sendi fundurinn frá sér meðfylgjandi ályktun:
Afhendingaröryggi raforku á Suðurnesjum hefur verið í uppnámi í meira en tvo áratugi.
Suðurnesjalína II er ekki einungis mikilvæg fyrir 30.000 manna byggð sveitarfélaganna á Reykjanesi vegna raforkuöryggis heldur einnig vegna þeirra fyrirtækja og alþjóðaflugvallarins sem treysta á að geta haldið áfram starfsemi og frekari uppbyggingu á svæðinu.
Mörg stór verkefni eru fyrirhuguð og sum hver komin vel áleiðis. Hér er um mörg hundruð störf að ræða, mikla verðmætasköpun og samkeppnishæfni svæðisins er í húfi.
Því er algjörlega óásættanlegt með öllu að láta þetta gríðarlega mikilvæga mál reka á reiðanum. Ljóst er að lausn sem uppfyllir ýtrustu kröfur allra aðila er ekki til og verða því aðilar máls að taka ábyrgð. Eins fylgir því líka ábyrgð að leiða framkvæmdavald stjórnsýslunnar sem kemur að málum.
Ætla stjórnvöld (innviðaráðherra og umhverfis- orku og loftlagsráðherra ) og sveitarfélagið Vogar að halda orkuöryggi og vaxtatækifærum Suðurnesja áfram í gíslingu?
Þar sem Suðurnesjalína II hefur uppfyllt allan þann langa og flókna leyfaferil sem þarf til framkvæmdaleyfis skorar SAR á stjórnvöld, Landsnet og Sveitarfélagið Voga að veita tafarlaust framkvæmdarleyfi við lagningu Suðurnesjalínu II.