Sandgerðishöfn: Ufsanum mokað upp
Mjög góð veiði hefur verið hjá færabátum sem leggja upp aflann í Sandgerði. Aðallega hafa bátarnir verði að fá stóran ufsa. Karl Einarsson starfsmaður á höfninni í Sandgerði sagði í samtali við Víkurfréttir að veiðin hjá færabátunum hafi verið fremur slök hingað til. „Það hefur verið nóg af ufsa en þeir hafa verið tregir til að taka hann upp fyrr en núna. Ufsinn sem þeir eru að koma með að landi er það stór að þeir eru snöggir að ná honum upp,“ sagði Karl en kílóverðið fyrir ufsann á fiskmörkuðum er í kringum 35 krónur.
Aflahæsti báturinn í Sandgerði í gær var Baddý GK 277 með um 7 tonn eftir einn og hálfan sólarhring. Að sögn Karls var algengt að bátarnir væru að koma með um eitt og hálft tonn af ufsa að landi þar sem einn maður var um borð.
Bátarnir í Sandgerði fara að týnast inn upp úr hádeginu og segist Karl búast við miklu fjöri á bryggjunni í dag.
Myndin: Frá Sandgerðishöfn. VF-ljósmynd/Jóhannes Kr. Kristjánsson.