Sandgerðishöfn: Stjórnvöld þurfa að axla ábyrgð
Ríkisvaldið verður að axla ábyrgð á því hvernig komið er fyrir höfninni í Sandgerði segir í bókun meirihlutans í Sandgerði, en ársreikningar sveitarfélagsins voru afgreiddir í síðustu viku.
Í kröfu meirihlutans segir að framsal aflaheimilda frá bæjarfélögum hafi orðið þess valdandi að „hafnir geta ekki rekið sig með þeim skuldum sem á þeim hvíla“.
Mikill hallarekstur hefur verið á höfninni um árabil og var tap í fyrra alls um 40 milljónir. Uppsafnaður hallarekstur er kominn í 434,2 milljónir og er eiginfjárreikningur neikvæður um 265,3 milljónir.
Í bókun minnihlutans segir að afgangur af rekstri hafnarinnar sé ekki nema einn tíundi af því sem þarf til að hún standi undir sér.
Þá gerir minnihlutinn athugasemd við fyrirkomulag við leigugreiðslur til Fasteignar hf. en þær eru að 55% bundnar við gengi krónunnar gegn Evru. Þannig sé bæjarsjóður viðkvæmur fyrir gengissveiflum.
Einnig sé áhyggjuefni að eiginfjárhlutfall lækkar úr 32% í 19%.
Meirihlutinn svarar því til að rekstur A-hluta bæjarsjóðs sé á réttir leið og framtíð sveitarfélagsins sé björt og í takt við áætlanir og markmið.
Helstu tölur í ársreikningum eru að tekjur jukust á milli ára úr 773,4 milljónum upp í 879,9 milljónir.
Rekstarniðurstaða A-hluta er neikvæð upp á 19,7 milljónir en niðurstaða A og B hluta er neikvæð sem nemur 91,7 milljónum.
Eigið fé A og B hluta í árslok 2006 var um 400 milljónir, en eigið fé A-hluta var 750 milljónir.
VF-mynd úr safni: Frá Sandgerðishöfn