Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Sandgerðisbær vill stærri eignarhluta í Vörðunni
Þriðjudagur 5. júlí 2005 kl. 12:04

Sandgerðisbær vill stærri eignarhluta í Vörðunni

Bæjarráð Sandgerðisbæjar hefur falið Sigurði Vali Ábjörnssyni, bæjastjóra að hefja viðræður við Búmenn um kaup á stærri hlut í miðbæjarhúsinu Vörðunni en gert var ráð fyrir við undirritun á samningi á sínum tíma. Hlutur bæjarins var um 120 milljónir og er stefnan að auka eignarhlutann um annað eins og mun bærinn þar með eiga meirihluta í húsinu.

Í vor voru gerðar breytingar á lánafyrirkomulagi Lánasjóði sveitarfélaga sem gerði fjársterkum sveitarfélögum kleift að taka stærri lán en áður tíðkuðust og um leið til lengri tíma, þ.e. úr 10 árum upp í 17 ár.

Þá hafa vextir á bankalánum lækkað umtalsvert frá því að samningurinn var gerður, eða úr 5,1% til 5,7% niður í 3.8%.

Sigurður Valur sagði í samtali við Víkurfréttir að þessir þættir hafi gjörbreytt greiðslugetu fyrir sveitarfélögin.

„Þegar nýja fyrirkomulagið var sett á settist ég niður með endurskoðanda sveitarfélagins og við fórum vandlega yfir þessi mál. Upp úr því kom að augljós hagræðing væri að því að eignarhluti bæjarins væri aukinn.“

Sparnaður bæjarins á milli lána frá lánasjóðnum og leigu frá Búmönnum gæti numið um 50 milljónum króna á 50 ára tímabili. Það er mikill viðsnúningur frá fyrri áætlunum sem gerðu ráð fyrir að leiga gæti sparað sveitarfélaginu 20 milljónir á sama tímabili.

„Svo eru menn alltaf að reyna að fara sem best með almannafé og hluti af því er að endurskoða allar ákvarðanir,“ sagði Sigurður að lokum. „Við áttum góðan fund með fulltrúum frá Búmönnum í gær og þeir sýndu málinu fullan skilning og við munum fara út í formlegar viðræður í byrjun ágústmánaðar eftir sumarleyfi.“

[email protected]

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024