Sandgerðisbær þarf að lána Fasteign
Eignarhaldsfélagið Fasteign fær ekki lánað fyrir nýframkvæmdum og er fjárþurfi. Félagið er í meirihlutaeigu tíu sveitarfélaga og hefur t.a.m. Reykjanesbær sett nærfellt allar sínar fasteignir inn í félagið. Sandgerðisbær þarf að fá lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga og áframlána féð til Fasteignar svo hægt sé að hefja framkvæmdir við stækkun grunnskólans, að því er fram kemur í frétt 24ra stunda í morgun. Áætlað er að stækkunin kosti 820 milljónir.
Ekki náðist í Sigurð Val Ásbjarnarson í morgun en blaðið hefur eftir honum að sveitarfélögin þurfi lögum samkvæmt að veita ákveðna þjónustu og finna beri hentugustu leiðina hverju sinni. Sveitarfélagið sé að því með þessu.
Ólafur Þór Ólafsson, fulltrúi Samfylkingar í bæjarstjórn, segir í samtali við 24stundir að þarna sé Sandgerðisbær að taka lán, framselja það til Fasteignar og greiði síðan leigu af byggingunni til Fasteignar til að hægt sé að borga lánið niður.
Haft er eftir Bergi Haukssyni, framkvæmdastjóra Fasteignar að bankar, sem sýnt hafi áhuga á að lána félaginu, séu hættir að vilja lána til framkvæmda hér á landi vegna alþjóðlegrar lánsfjárkreppu.
Frá fyrstu skóflustungu að viðbyggingu Sandgerðisskóla á dögunum. VF-mynd/elg