Sandgerðisbær selur skólahús og samkomuhús til Fasteignar hf.
Málefni fasteigna Sandgerðisbæjar voru fyrirferðarmikil á kynningarfundi sem Sigurður Valur Ásbjarnarson, bæjarstjóri, hélt á mánudagskvöld. Þar kynnti hann m.a. áætlanir um að selja tvær fasteignir bæjarins, skólahúsið og samkomuhúsið til fasteignafélagsins Fasteignar hf., en fjölmörg önnur sveitarfélög hafa gripið til svipaðra rástafana. Með því á að nást hagræðing í rekstri og hefur slíkt fyrirkomulag gefið góða raun í þeim sveitarfélögum sem hafa farið þá leið. Söluandvirðið, um 350 milljónir króna, fer í að greiða niður langtímaskuldir bæjarins sem munu, samkvæmt áætlunum bæjarstjóra, lækka umtalsvert næstu ár.
Sigurður kynnti ákvörðun bæjarins um að taka upp samstarf við Búmenn. Í því felst að Búmenn byggja 13 íbúðir í miðbænum þar sem bæjarfélagið kaupir þriðjung íbúðanna. Þangað fer ýmis starfsemi bæjarins og verða þær fasteignir sem reksturinn flyst úr seldar á móti kaupunum í nýja miðbæjarhúsinu.
Þá kynnti Sigurður niðurstöðu bæjarins varðandi skattamál flugvallarsvæðisins og lagði einnig áherslu á að átak þyrfti að gera í atvinnumálum bæjarins. Til að fjölga störfum hefur verið sett í gang fagnefnd og sagðist Sigurður binda miklar vonir við hennar störf.
Hressilegar umræður mynduðust á fundinum þegar orðið var gefið laust og sýndist sitt hverjum, sérstaklega í fasteignamálunum.