Sandgerðisbær hlaut Landgræðsluverðlaun
Sanderðisbær var í hópi verðlaunahafa þegar Landgræðsluverðlaunin 2010 voru veitt fyrir helgi við hátíðlega athöfn í Gunnarsholti. Aðstoðarmaður umhverfisráðherra, Hafdís Gísladóttir, afhenti verðlaunin fyrir hönd umhverfisráðherra. Verðlaunin að þessu sinni hlutu Ársæll Hannesson, Hermann Herbertsson, Ingólfur Helgason og Unnur Sveinbjörnsdóttir, Sandgerðisbær og Þjórsárskóli.
Landgræðsluverðlaunin eru veitt einstaklingum, félagasamtökum og skólum sem unnið hafa að landgræðslu og landbótum. Með verðlaununum vill Landgræðslan vekja athygli á því mikilvæga starfi sem áhugafólk vinnur um land allt.
Á heimasíðu Landgræðslunnar er fjallað nánar um verðlaunahafana í ár. Þar segir eftirfarandi um Sandgerðisbær:
„Sandgerði var orðinn blómlegur útgerðarbær á þriðja áratug tuttugustu aldar. Eins og nafnið bendir til er jarðvegur þar sendinn og barst sandurinn frá sjó og upp á landið og olli miklum skaða á graslendi, fiskreitum og heima við hús íbúanna. Sandgræðsla Íslands girti foksvæðið af rétt fyrir 1940. Auk þess var reistur sjóvarnargarður sem varði byggðina og safnaði að sér sandi sem melfræi var sáð í. Þannig náðist að stöðva sandfokið. Vakning er í bæjarfélaginu fyrir umhverfismálum almennt og undanfarin ár hefur markvisst verið unnið að því að græða upp land, sem hart var leikið af nýtingu og uppblæstri fyrri alda. Rofabörðum hefur verið lokað, melar græddir, gamlar malargryfjur hreinsaðar af drasli og græddar upp og tré gróðursett.
Unnið er að því að koma upp svokölluðum „Yndisgarði" á útivistarsvæði bæjarins, þar sem land var áður í tötrum. Umhverfisráð bæjarins hefur veitt íbúum og fyrirtækjum verðlaun fyrir fallega garða og snyrtilegt umhverfi. Íbúar Sandgerðis hafa tekið virkan þátt í þessu starfi gegnum tíðina, enda hefur umhverfi bæjarins tekið algjörum stakkaskiptum. Sandgerðisbær og Landgræðslan hafa um áratuga skeið átt farsælt samstarf í jarðvegs- og gróðurverndarmálum.“
Myndin er af vef Landgræðslu Ríkisins.