Sandgerðisbær hlaut Comenius Regio styrk
Sandgerðisbær hlaut í sumar Comenius Regio styrk úr Menntaáætlun ESB til að vinna að tveggja ára samstarfsverkefni með finnska sveitarfélaginu Mänttä-Vilppula. Verkefnið kallast Development of curricula and teacher training og snýr að þróun námskráa, kennsluefnis og þjálfunar fyrir kennara í náttúrufræðum og listgreinum. Markmið verkefnisins er að tengja saman skóla og hinar ýmsu stofnanir og fyrirtæki bæjarfélaganna á þessum sviðum.
Í Sandgerði eru það grunnskólinn, leikskólinn, Þekkingarsetur Suðurnesja, Náttúrustofa Suðvesturlands, Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurnesjum og Listatorg sem taka þátt og eru vonir bundar við að verkefnið skili auknum tengslum þeirra við menntastofnanir bæjarins og spennandi verkefnum fyrir nemendur.
Verkefnið hófst formlega nú á dögunum með heimsókn fulltrúa frá Finnlandi til Sandgerðis. Hópurinn heimsótti þær stofnanir sem taka þátt í verkefninu af hálfu Sandgerðisbæjar og fundaði með fulltrúum þeirra. Haldin var móttaka í Vörðunni þar sem bæjarstjóri og forseti bæjarstjórnar buðu hópinn velkominn. Auk þess var farið í skoðunarferð um Reykjanesið, segir á vef Sandgerðisbæjar.