Sandgerðisbær greiðir upp fjögur lán
Sandgerðisbær mun greiða upp lán sem nema rúmlega 463 milljónum króna samþykki bæjarstjórn tillögu bæjarráðs þess efnis. Um er að ræða fjögur lán, það hæsta upp á 252 milljónir króna.
Á fundi bæjarráðs í gær lagði bæjarstjóri fram tillögu um uppgreiðslu þessara lána. Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að tillagan verði samþykkt og farið verði að ákvæðum í samþykkt fyrir Velferðarsjóð Sandgerðisbæjar þar sem kveðið er á um að bæjarstjórn geti ráðstafað fé úr sjóðnum. Áður þurfa þó að fara fram tvær umræður í bæjarstjórn. Eftir uppgreiðslu lánanna verður um einn milljarður eftir í sjóðnum.
Sandgerðisbær var eitt þeirra sveitarfélaga sem nýlega fékk bréf frá Eftirlitsnefnd sveitarfélaga vegna fjárhagstöðu þeirra og er gripið til þessara ráðstafana í framhaldi af því.