Sandgerðisbær dæmdur til að endurgreiða flugstöðinni
Hæstiréttur hefur dæmt Sandgerðisbæ til greiðslu rúmra 37 milljóna króna til Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar hf. en um er að ræða oftekinn fasteignaskatt á árunum 1998 til 2000. Ástæða þessa má rekja til þess að álagningarstofn fasteignaskatts flugstöðvarinnar var fyrir mistök Fasteignamats ríkisins ákvarðaður 36,8% of hár frá árinu 1989, en frá þessu er greint á mbl.is.
Vegna fyrningarákvæða náði endurgreiðslukrafan til aðeins þriggja ára, en ekki var deilt um að álagningarstofninn vegna fasteignaskattsins hefði verið of hár. Rök Sandgerðisbæjar í málinu voru að Flugstöð Leifs Eiríkssonar ætti ekki aðild að málinu þar sem krafan hefði ekki verið til þegar 1. október árið 2000, þegar hlutafélagið yfirtók Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Héraðsdómur Reykjaness hafði áður fallist á sjónarmið Sandgerðisbæjar og sýknað bæjarfélagið af kröfunni. Hæstiréttur taldi hins vegar að krafa um endurgreiðslu oftekinna skatta stofnist þegar ofgreiðsla eigi sér stað. Því hafi krafan verið til þegar hlutafélagið tók við öllum eignum, réttindum og skyldum flugstöðvarinnar 1. október 2000.