Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

  • Sandgerðingar vilja ljósnet inn á öll heimili
    Símstöðin í Sandgerði er að Suðurgötu 2. Ljósnetið nær 1000 metra út frá stöðinni. VF-mynd: Hilmar Bragi
  • Sandgerðingar vilja ljósnet inn á öll heimili
    Bæjaryfirvöld í Sandgerði þrýsta á Mílu að ljúka ljósnetvæðingu Sandgerðis.
Laugardagur 9. janúar 2016 kl. 06:00

Sandgerðingar vilja ljósnet inn á öll heimili

- aðeins hluti bæjarins ljósnetstengdur

Bæjarráð Sandgerðis ítrekar nauðsyn þess að flýta framkvæmdum við lagningu ljósnetsins í Sandgerðisbæ þannig að allir sitji við sama borð þegar að lágmarksþjónustu kemur. Hafa bæjaryfirvöld í Sandgerði sett sig í samband við Mílu og spurst fyrir um hvenær fyrirtækið áformi að ljúka lagningu ljósnets í bæjarfélaginu.

Fyrir nokkrum árum var settur upp búnaður við Suðurgötu 2 í Sandgerði til að íbúar gætu tengst ljósnetinu. Íbúar sem búa í allt að 1000 metra fjarlægð geta nú nýtt sér ljósnet en ekki aðrir íbúar. Það er þó nokkur fjöldi heimila í Sandgerði sem ekki nær að nýta sér ljósnetið og hafa íbúar kvartað vegna þessa og vegna lélegra tenginga við internetið.

Þegar áætlun um lagningu ljósnets í Sandgerði var kynnt á sínum tíma kom fram að stöðin við Strandgötu væri fyrsta skrefið og síðan yrðu settir skápar víðar þannig að ljósnetið væri öllum aðgengilegt. Í erindi sem Sigrún Árnadóttir, bæjarstjóri í Sandgerði, sendi til Mílu er spurt hvenær fyrirtækið ætli að ljúka lagningu ljósnetsins í Sandgerði. Þá óska bæjaryfirvöld eftir því að það verði gert hið fyrsta.

Í svörum Mílu til Sandgerðisbæjar kemur fram að forgangsröðun í ljósveitu/ljósneti var þannig að upphaflega voru allir helstu þéttbýliskjarnar á landinu tengdir út frá símstöð. Á sumum stöðum næst til allra heimila en á stærri stöðum og þar sem fjarlægð frá símstöð er mikil þarf aðrar fjárfestingar. Til að bjóða ljósveitu/ljósnet fjær símstöð þarf að bæta við svokölluðum götuskápum sem tengdir eru með ljósleiðara til símstöðvar. Götuskápur er einskonar smásímstöð þar sem er sérhæfður búnaður tryggir góðan hraða yfir þann enda sem eftir er inn til notandans.

„Um okkar forgangsröðun má segja að almennt reynum við að fara fyrst þar sem flestir geta nýtt þjónustuna fyrir hverja fjárfesta krónu. Það er ástæða þess að  þjónustan var í upphafi  sett upp út frá símstöð á minni þéttbýliskjörnum. Ýmislegt getur haft áhrif á framkvæmdakostnað á hverjum stað og þar með forgangsröðun svo sem þeir innviðir sem við eigum á hverju svæði sem hægt er að nýta í verkefnið. Í nýrri hverfum eru gjarnan til staðar innviðir sem hjálpa án þess að það sé algilt,“ segir m.a. í svörum Mílu. Þar kemur jafnframt fram að byrjað hafi verið á höfuðborgarsvæðinu og á nýliðnu ári hafi stærstur hluti framkvæmda verið á Akureyri en nokkur önnur þéttbýlissvæði séu á dagskrá fyrirtækisins. Ekki koma fram upplýsingar um hvenær ráðist verði í frekari framkvæmdir í Sandgerði aðrar en þær að Míla mun halda áfram að bæta við götuskápum á komandi árum til að bæta tengingar. Áætlanir gera ráð fyrir að það geti tekið allt að 3 ár að klára það verkefni á landsvísu.


 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024