Sandgerðingar vilja flóttafólk
Bæjarráð Sandgerðis hefur lýst yfir vilja til þess að taka á móti flóttafólki frá Sýrlandi. Bæjarráðið fundaði á þriðjudag og tók þar fyrir erindi frá Velferðarráðuneytinu vegna málefna flóttafólks. Yfirvöld í Sandgerði munu í framhaldi af yfirlýsingu bæjarráðs eiga viðræður við ráðuneytið um málið.
Þá hefur Róberti Ragnarssyni, bæjarstjóra í Grindavík, verið falið að setja saman minnisblað með nauðsynlegustu upplýsingum svo bæjarstjórn Grindavíkur geti tekið ákvörðun um flóttamannamál á fundi sínum þann 29. september nk.
Bæjarráð Garðs gerir ráð fyrir að taka fyrir erindi Velferðarráðuneytisins í næstu viku.
Erindi ráðuneytisins hefur ekki verið tekið til formlegrar skoðunar hjá bæjaryfirvöldum í Reykjanesbæ. Þó má geta þess að Reykjanesbær hefur sinnt móttöku hælisleitenda/flóttamanna um margra ára skeið og gerir enn.