Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Sandgerðingar vilja ekki viðræður um sameiningu sveitarfélaga
Fimmtudagur 21. júní 2012 kl. 11:58

Sandgerðingar vilja ekki viðræður um sameiningu sveitarfélaga



Á fundi bæjarráðs Sandgerðisbæjar á dögunum var tekið fyrir erindi frá bæjarráði Reykjanesbæjar þar sem óskað er eftir viðræðum við sveitarfélögin Garð og Sandgerði um mögulega sameiningu sveitarfélaganna. Óskað var viðbragða bæjarstjórna Garðs og Sandgerðis við þessari málaleitan.

Bæjarráð samþykkti eftirfarandi bókun:

„Bæjarráð Sandgerðisbæjar telur ekki rétt að fara í viðræður um sameiningu sveitarfélaga á þessum tímapunkti og telur þess í stað að stefna eigi að enn öflugra samstarfi sveitarfélaganna á Suðurnesjum. Undanfarin misseri hefur verið unnið markvisst að fjárhagslegri endurskipulagningu með það að leiðarljósi að rekstur sveitarfélagsins geti orðið sjálfbær til framtíðar. Bæjarráð telur því ekki rétt að dreifa kröftunum nú þegar sjá má merki um að sú vinna er farin að skila Sandgerðisbæ árangri.“


Skömmu áður höfðu Garðbúar samþykkt að ræða sameiningu en nú er óvíst hvernig málið liggur vegna bókunar Sandgerðisbæjar. Reykjanesbær og Garður hyggjast ræða málin.


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024