Sandgerðingar skora á stjórnvöld
- Þjóðin fái að kjósa um aðild að Evrópusambandinu
Á fundi bæjarráðs Sandgerðis á dögunum lögðu formaður bæjarráðs og forseti bæjarstjórnar fram tillögu þar sem Bæjarráð Sandgerðisbæjar skorar á Alþingi að draga til baka tillögu til þingsályktunar um að umsókn um aðild að Evrópusambandinu verði dregin til baka.
Tillagan var rædd og samþykkt með tveimur atkvæðum meirihluta, en fulltrúi D-lista sat hjá. Jafnframt var skorað á Alþingi að tryggja aðkomu þjóðarinnar að ákvörðun um framhald aðildarviðræðnanna með því að boða til þjóðaratkvæðagreiðslu um málið.
Í bókun bæjarráðs segir að með þessu væri skref stigið til sáttar í íslensku samfélagi og staðið við þau fyrirheit sem gefin voru í aðdraganda kosninga. Þá tók bæjarráð undir samþykkt stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 28. febrúar 2014 þar sem hvatt er til þess að sveitarfélögum á landinu sé tryggt ráðrúm til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri í þessu máli sem snertir á velferð hvers Íslendings.