Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Mánudagur 6. október 2003 kl. 09:20

Sandgerði: Vandinn er meiri en við ráðum við

- segir Sigurður Valur bæjarstjóri

Bæjarstjórnin í Sandgerði hefur boðað þingmenn Suðurkjördæmis til fundar á fimmtudaginn til að ræða ástandið í bæjarfélaginu. Sigurður Valur Ásbjarnarson bæjarstjóri segir að það sé mjög mikilvægt að þingmenn geri sér grein fyrir vandanum sem steðjar að Sandgerði þar sem þetta sé það sveitarfélag sem hefur orðið fyrir hvað mestum áföllum á síðustu árum. „Það hafa dunið á okkur áföllin síðustu tvö árin,“ segir bæjarstjórinn. Hann segir að áætlanir hafi verið gerðar um uppbyggingu í samráði við ríkisvaldið, sem beri þar af leiðandi ábyrgð á ástandinu. Hann vísar til þess að kvótinn hafi flust úr byggðinni vegna sölunnar á Miðnesi til Haraldar Böðvarssonar. Svo hafi loðnuverksmiðjan verið rifin niður í sumar. „Síldarvinnslan í Neskaupstað átti hana en svo sameinaðist hún SR-mjöli sem átti verksmiðju í Helguvík og þá þótti ekki bera sig að hafa tvær verksmiðjur á Suðurnesjum,“ segir Sigurður Valur. Þá bendir hann á að útgerðarmenn hafi yfirgefið byggðina og leitað fjárfestingartækifæra annars staðar.
„Það er alveg ljóst að það þarf að grípa til aðgerða því vandinn er meiri en við ráðum við,“ segir Sigurður Valur. Hann segir að bæjarfélagið hafi farið út í miklar fjárfestingar á síðustu árum í samræmi við vilja þeirra sem áttu kvótann og ríkisvaldið. Meðal annars hafi höfnin sem þjónustar nágrannasveitarfélögin verið stækkuð, dýpkuð og betrumbætt fyrir einn milljarð króna. Norðurgarður hafnarinnar var stækkaður til að þjónusta uppsjávarveiðiflotann en eftir að loðnuverksmiðjan er farin er vafi á hvernig sú fjárfesting nýtist. Sigurður Valur segir að nú sé svo komið að tekjur hafnarinnar standi engan veginn undir rekstri eða skuldum hennar. Bæjarfélagið hefur þegar þurft að fækka störfum við höfnina um tvö en hefur lítið svigrúm til að taka á vandanum án utanaðkomandi aðstoðar.
Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024