Sandgerði: Stórhuga uppbygging íþróttamannvirkja
Þrátt fyrir myndarlega viðbót við íþróttamiðstöð Sandgerðisbæjar, sem opnuð var formlega í gær, er uppbyggingu á íþróttasvæðum bæjarfélagins hvergi nærri lokið.
Á næstu árum stendur m.a til að reisa tæplega 5 þúsund fermetra íþróttahöll sem fengið hefur nafnið Sandgerðishöllin.
Þetta kom fram í ræðu Sigurðar Vals Ásbjarnarsonar, bæjarstjóra í Sandgerði, sem hann flutti í gær við opnun nýrrar sundlaugar og viðbyggingar íþróttahússins. Í máli hans kom fram að Sandgerðishöllin verði ein stærsta framkvæmd sem bæjarfélagið hefur ráðist í. Að gólffleti verður hún 4,900 fermetrar með þjónustubyggingu. Áætlað er að húsið verði komið í notkun fyrir sumarið 2010.
Þá standa fyrir dyrum frekari framkvæmdir við íþróttahúsið þar sem koma á upp góðri aðstöðu fyrir fatlaða, áhaldageymslu og minni sal fyrir skvass og sjálfsvarnaríþróttir. Þær framkvæmdir hefjast í vetur þegar endanlegar teikningar hafa verið samþykktar.
Samnningar hafa tekist upp uppbyggingu golfvallar Sandgerðis en honum verður breytt úr 9 holu völl í 18 holu. Þá eru hafnar framkvæmdir við Reynisvöllinn en athafnasvæði hans verður stækkað um þrjú þúsund fermetra.
VF-mynd/elg: Í opnunarræðu Sigurðar V. Ásbjarnarsonar í gær kom fram að hafið er nýtt skeið í uppbyggingu íþróttamannvirkja í Sandgerði.