Sandgerði réttu megin við núllið
– jákvæð rekstrarniðurstaða Sandgerðisbæjar á árinu 2014
Ársreikningur Sandgerðisbæjar fyrir árið 2014 var lagður fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn 21. apríl s.l. Síðari umræðan fer fram 5. maí. Rekstrarniðurstaðan er jákvæð um 43 milljónir króna og 114 milljónum króna betri en áætlun ársins gerði ráð fyrir.
Niðurstaða ársreikningisins gefur skýrt til kynna að fjárhagslegar aðgerðir síðustu ára eru að skila sér. Undanfarin ár hafa farið fram miklar aðgerðir til að endurskipuleggja fjárhag sveitarfélagsins og uppfylla ákvæði fjármálareglna sveitarstjórnarlaga. Árið 2014 var haldið áfram með hagræðingaraðgerðir auk þess sem farið var í endurfjármögnun skulda og lokið við uppkaup á eignum sem áður voru í eigu Eignarhaldsfélagsins Fasteignar ehf.
Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði í A og B hluta er jákvæð um 139 millj. kr. Rekstur málaflokka og stofnana er innan áætlunar og oft vel það þrátt fyrir mikla hækkun lífeyrisskuldbindinga.
Fjármagnsgjöld umfram fjármagnstekjur lækka umtalsvert milli ára eða úr 253 milljónum kr. árið 2013 í 96 milljónir kr. árið 2014. Þessi lækkun skýrist m.a. af lágri verðbólgu á árinu, uppkaupum eigna og skuldbreytingu lána.
Handbært fé frá rekstri er 262 milljónir kr. og hefur hækkað frá fyrra ári um tæpar 87 milljónir. Kennitölur í rekstri sýna að fjárhagslegur styrkur Sandgerðisbæjar er að aukast. Framlegðarhlutfall A og B hluta er 18% og skuldaviðmiðið er komið í 201% en var tæp 227% árið 2013 og hefur lækkað umtalsvert á undanförnum árum. Skuldaviðmiðið fyrir A hluta er 149% en var árið 2013 tæp 170%. Ef áætlanir næstu ára standast mun rekstrarjöfnuður nást eigi síðar en á árinu 2017 og skuldaviðmiðið fyrir A og B hluta verður komið niður fyrir hin lögbundnu 150% á árinu 2019.
„Þessi niðurstaða ársreikninganna er mjög jákvæð fyrir okkur Sandgerðinga,“ segir Ólafur Þór Ólafsson forseti bæjarstjórnar Sandgerðisbæjar. „Í fyrsta skipti frá árinu 2007 er rekstur Sandgerðisbæjar réttu megin við núllið eftir að tekið hefur verið tillit til fjármagnsliða sem er einstaklega ánægjulegt og sýnir að aðgerðir síðustu ára eru að skila árangri. Þá gleður það ekki síður að við færumst nær fjárhagslegum markmiðum okkar hraðar en áætlanir gera ráð fyrir og ættum að standast öll fjárhagsleg viðmið sveitarstjórnalaga innan fjögurra ára,“ segir Ólafur jafnframt.
„Ég vil ekki draga úr mikilvægi ytri þátta en tel þó að þennan árangur megi að stærstum hluta þakka samstöðu allra aðila í þessu erfiða verkefni hvort sem það er í bæjarstjórn, í starfsliði sveitarfélagsins eða meðal íbúa. Svona góður árangur næst ekki nema allir standi saman“.