Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Sandgerði: Nýr leikskóli í burðarliðnum
Föstudagur 9. nóvember 2007 kl. 16:03

Sandgerði: Nýr leikskóli í burðarliðnum

Nýr leikskóli er í burðarliðnum í Sandgerði að því er fram kemur í bókun meirihluta á bæjarstjórnarfundi í fyrrakvöld. Bókunin var svar við aðfinnslum minnihluta á síðasta fundi þar sem ítrekað var að frekar hefði átt að ráðast í nýbyggingu heldur en að kaupa og breyta öðru húsnæði. Vísaði minnihlutinn í bókun þeirra frá nóvember 2006 í því sambandi.

Meirihlutinn svaraði því til að þeir hefðu í raun hraðað uppbyggingu á leikskólarýmum fyrir börn með lögheimili í bæjarfélaginu og hefði verið farið að tillögum minnihlutans á sínum tíma væri nú ekki verið að þjóna börnum að Sólheimum 1 og 3 og við Skólastræti 1, sem er það húsnæði sem var tekið undir leikskólarými á sínum tíma.

Í bókun þeirra sagði einnig:

„Bæjarfulltrúar meirihlutans gerðu sér ljóst að gera þyrfti breytingar á aðalskipulagi bæjarfélagsins og láta síðan gera deiliskipulag á nýjum stað fyrir slíkar byggingar. Þá átti eftir að hanna húsnæðið og bjóða það út sem og að ráðast í umsvifamiklar framkvæmdir.
Meirihlutanum er einnig ljóst að koma þarf vinnuaðstöðu á leikskólanum Sólborg í betra horf.
Það hefur hinsvegar alla tíð legið fyrir að láta hanna nýjan leikskóla á nýjum stað og verður það gert um leið og skipulagsráð er búið að staðsetja skólann og gera nauðsynlegar breytingar á skipulagi bæjarfélagsins.

Meirihluti bæjarstjórnar hafnar því þeirri skoðun minnihlutans að um sé að ræða skammtímalausnir. Megin málið er að fjárfestingin þjónar þörfum ungs fólk í bæjarfélaginu.

Rétt er og að halda því til haga að kostnaðurinn við Sólheima 1 og 3 var minni en við eina deild við leikskólann Sólborg.

Innihald bókunar S-lista og B-lista frá 244. fundi bæjarstjórnar er í dag jafn slæm nú og hún var á þeim tíma. Bæjarfulltrúar S-lista og B-lista gleymdu eins og oft áður að þeir eru ráðnir af íbúunum til að sjá um góða þjónusta við bæjarbúa þegar þörfin er fyrir hendi. Að vísa málinu í þann farveg sem tillaga þeirra gerði ráð fyrir hefði tekið marga mánuði í skipulagsvinnu og ár til að uppfylla með byggingarframkvæmdum.“


Eftir að þessi bókun var lögð fram óskaði minnihlutinn eftir fundarhléi og eftir það áskildu þau sér rétt til að leggja fram frekari bókkanir um málið síðar.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024