Sandgerði: Minnihlutinn efaðist ekki um hæfni Fanneyjar
Fulltrúar minnihluta í bæjarstjórn Sandgerði segjast í yfirlýsingu aldrei hafa efast um hæfni Fanneyjar D. Halldórsdóttur, sem var nýlega ráðin skólastjóri við grunnskólann í Sandgerði. Eins og flestir vita spruttu upp deilur vegna þess að ýmsum aðilum fannst framhjá Pétri Brynjarssyni, starfandi skólastjóra. Komust fjölskyldutengsl inn í málið, en Fanney er tengdadóttir Óskars Gunnarssonar, forseta bæjarstjórnar.
Yfirlýsing minnihlutans er svar við harðorðri bókun meirihlutans þar sem nafngreint Samfylkingarfólk í Sandgerði var sakað um að nýta sér tækifærið til að gera „Aumkunarverða tilraun til að koma pólitísku höggi á meirihlutann og forseta bæjarstjórnar.“
Minnihlutinn segir að meirihlutin hafi ekki staðið við umsamið vinnuferli við ráðninguna og fulltrúum minnihluta í skólaráði hafi ekki verið kynnt skýrsla sérfræðinga sem mátu umsækjendur.
Þá hafi meirihlutinn dregið nafngreina aðila inn í málið sem komu því ekki við og haft uppi um þá aðdróttanir.
Í yfirlýsingunni segir minnihlutinn aukinheldur að möguleiki sé á að lögmæti ráðningar verði dregið í efa þar sem einn bæjarfulltrúi D-lista, sé einnig starfsmaður við skólann. Þess vegna hafi hún átt að lýsa sig vanhæfa til að taka þátt í ákvörðunartökunni.
Hér fylgir yfirlýsingin í fullri lengd:
Vegna yfirlýsingar og bókunar um starfsmannaráðningar hjá Sandgerðisbæ frá meirihluta bæjarstjórnar Sandgerðisbæjar á 252. fundi hennar 13.06.2007 vilja bæjarfulltrúar og varabæjarfulltrúar S-lista Samfylkingarinnar og óháðra taka eftirfarandi fram:
Afstaða bæjarfulltrúa S-listans gagnvart ráðningu skólastjóra Grunnskólans í Sandgerði kemur fram í bókun minnihlutans á 251. fundi bæjarstjórnar 06.06.2007. Vegna ofangreindrar yfirlýsingar og bókunar meirihlutans er þó nauðsynlegt að eftirfarandi komi fram:
Bæjarfulltrúar og varabæjarfulltrúar S-listans vilja taka það skýrt fram að þeir hafa aldrei efast um hæfni Fanneyjar D. Halldórsdóttur til að sinna starfi skólastjóra Grunnskólans í Sandgerði, enda hefur slíkt hvergi komið fram.
Meirihlutanum er tíðrætt um faglegt mat sérfræðinga sem þeir byggja ákvörðun sína um ráðningu skólastjóra á. Vegna þeirra fullyrðinga sem koma fram í yfirlýsingu meirihlutans er nauðsynlegt að eftirfarandi komi fram:
• Á fundi bæjarstjórnarinnar þann 2. maí s.l. sammæltust allir bæjarfulltrúar um það vinnuferli sem viðhaft skyldi við ráðninguna og kom það fram á minnisblaði sem var lagt fram á fundinum. Þar kom m.a. fram að leita skyldi álits ráðgjafa á umsækjendum. Það álit skyldi síðan lagt fyrir skólaráð þar sem pólitískir fulltrúar í ráðinu, ásamt fulltrúum kennara og foreldra skyldu fá tækifæri til að tjá sig um málið. Við þetta vinnuferli var ekki staðið þar sem álit ráðgjafanna kom aldrei fyrir skólaráð og hvorki kennarar né foreldrar höfðu tækifæri til að koma sinni skoðun á framfæri.
• Álit ráðgjafanna, sem er dagsett 23.05.2007, var sent til bæjarfulltrúa aðeins degi áður en ákvörðun um skólastjóraráðningu var tekin 6. júní s.l. og það einungis eftir að fulltrúar minnihlutans óskuðu sérstaklega eftir því við bæjarstjóra. Feluleikur meirihlutans með þetta álit vekur óneitanlega furðu.
• Ráðning skólastjóra Grunnskólans var rædd á tveimur fundum skólaráðs Sandgerðisbæjar 31.05.2007 og 04.06.2007. Á fyrri fundinn mætti íþrótta-, tómstunda, menningar- og skólafulltrúi Sandgerðisbæjar og afhenti gögn um umsækjendur. Meðal þeirra gagna var ekki umrætt mat, sem þó er dagsett 23.05.2007 og því ljóst að það lá fyrir á þeim tímapunkti og yfirlýsingar meirihlutans um annað fá ekki staðist.
• Yfirlýsingar um skoðanabreytingar tveggja fulltrúa meirihlutans í skólaráði á ótímasettum og óbókuðum meirihlutafundi hafa ekkert gildi. Pólitískir fulltrúar í skólaráði verða að standa við það sem þeir samþykkja og leggja til á formlegum og löglegum fundum ráðsins. Því verður því ekki breytt að tveir af þremur fulltrúum meirihlutans í skólaráði lögðu til að Pétur Brynjarsson yrði ráðinn í stöðu skólastjóra.
• Það er ámælisvert að fulltrúum í skólaráði sé mismunað í aðgangi að upplýsingum er varða ráðningu skólastjóra, eins og skýrlega kemur fram í yfirlýsingu meirihlutans.
• Það álit sem hér um ræðir er lögum samkvæmt trúnaðarmál, en þó er óhætt að segja að í því kemur fram að bæjarstjórn hafi staðið frammi fyrir tveimur góðum kostum með mismunandi styrkleikum þegar kom að ráðningu skólastjóra. Það er hins vegar ekki hægt að lesa út úr þessu áliti þau rök sem meirihlutinn færir fyrir því að ástæða sé að skipta um skólastjóra.
Í yfirlýsingu meirihlutans er vísað í ónafngreinda einstaklinga. Þar má einnig finna aðdróttanir um nafngreinda einstaklinga sem eru órökstuddar og til þess fallnar að vekja upp getgátur auk þess sem þær draga inn í umræðuna einstaklinga sem tengjast þessum málum á engan máta. Við biðjum okkur undan slíkum vinnubrögðum og óskum eftir því að fulltrúar meirihlutans tali hreint út en ekki í hálfkveðnum vísum sem eru einungis til þess fallnar að vekja upp tortryggni og úlfúð.
Við teljum rétt að vekja athygli á því að hægt er að draga lögmæti ákvörðunar bæjarstjórnar um ráðningu skólastjóra Grunnskólans í Sandgerði í efa. Bæjarfulltrúi Sjálfstæðismanna, Hólmfríður Skarphéðinsdóttir, er starfsmaður grunnskólans og tók þátt í umræðum um og afgreiðslu ráðningarinnar. Með vísan í 19 gr. og 40. gr. sveitarstjórnalaga nr. 45/1998 er hægt að efast um hæfi hennar til að ráða sér yfirmann og hefði hún átt að vekja athygli á hugsanlegu vanhæfi sínu á fundinum. Það gerði hún ekki.
Við hörmum það að bæjarfulltrúar meirihlutans skuli ekki hafa skynbragð á að skilja á milli pólitískrar umræðu í bæjarstjórn og óháðrar umfjöllunar fjölmiðla. Bæjarfulltrúar S-listans bera á engan hátt ábyrgð á því hvernig fjölmiðlar landsins ákveða að fjalla um þær ákvarðanir sem teknar eru af bæjarstjórn Sandgerðisbæjar en að sjálfsögðu lýsir oddviti minnihlutans skoðun sinni þegar blaðamenn hafa samband við hann.
Að lokum vilja bæjarfulltrúar og varabæjarfulltrúar S-listans nota tækifærið og óska forseta bæjarstjórnar, Óskari Gunnarssyni, til hamingju með nýtt starf yfirmanns við Áhaldahús Sandgerðisbæjar. Þar mun reynsla hans og þekking eflaust reynast vel og er honum óskað velfarnaðar í þeim verkefnum sem þar bíða.
Ólafur Þór Ólafsson
bæjarfulltrúi
Guðrún Arthúrsdóttir
bæjarfulltrúi
Sturla Þórðarson
varabæjarfulltrúi
Sigríður Ágústa Jónsdóttir
varabæjarfulltrúi
Vf-mynd/Þorgils - Sandgerðisskóli