Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Sandgerði komið í 5G samband
Miðvikudagur 2. september 2020 kl. 09:48

Sandgerði komið í 5G samband

Sandgerði bættist í hóp þeirra bæja sem státað geta af 5G netsambandi eftir að fjarskiptafyrirtækið Nova setti upp senda þar. Nova, sem fékk 5G rekstrarleyfi frá Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) í vor og hóf að bjóða þjónustuna til almennra viðskiptavina þann 5. maí síðastliðinn, fyrst íslenskra fjarskiptafyrirtækja, vinnur nú að uppbyggingu 5G þjónustusvæðis á fleiri stöðum á landinu. Auk Hellu og Sandgerðis eru 5G sendar einnig komnir upp í Vestmannaeyjum og á nokkrum svæðum í Reykjavík. Stefnir Nova að því að vera búið að 5G-væða stærstan hluta landsins á næstu tveimur árum.

Hundraðföldun á flutningsgetu frá 4G kerfinu

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

5G fjarskiptakerfi hafa verið að ryðja sér hratt til rúms í heiminum en hraði og flutningsgeta gagna með 5G er um hundraðfalt meiri en á 4G kerfinu, svo dæmi sé tekið. Nova er fyrsta fjarskiptafyrirtækið til að styðja 5G hér á landi en samhliða innleiðingunni á 5G mun Nova endanlega fasa út 3G fjarskiptakerfi fyrirtækisins. Fyrirtækið gerir ráð fyrir að taka niður síðasta 3G sendinn fyrir lok árs 2023.

Prófanir Nova á 5G kerfinu stóðu yfir í rúmt ár en fyrirtækið telur sig nú vera komið með næga þekkingu til að fara af fullum krafti í uppbyggingu þeirra innviða sem kerfið krefst. Þá eru sífellt fleiri tæki að koma inn á markaðinn sem styðja 5G hraða, bæði símar og önnur tæki. Ein helsta byltingin sem verður með tilkomu 5G kemur í gegnum sítengingu fleiri tækja en síma. Hraði og gagnaflutningsgeta kerfisins býður upp á að meira og minna allt sem við notum og er í okkar nánasta umhverfi, fundarherbergið, úrið, hjólið, bíllinn og jafnvel lækningatækið sé sítengt við netið, segir í frétt frá Nova.