Sandgerði fær 140 tonna byggðakvóta
Á fundi bæjarráðs Sandgerðis í gær var lagt fram bréf frá Sjávarútvegsráðuneytinu þar sem fram kemur að Sandgerðisbæ hefur verið úthlutað 140 tonna byggðakvóta fiskveiðiárið 2005/2006.
Bæjarráðið felur stjórn samstarfsverkefnis um aukningu fiskveiðiheimilda í bæjarfélaginu að úthluta umræddum fiskveiðiheimildum í samræmi við væntanlegt bréf þar um í september.
Bæjarráð leggur hinsvegar áherslu á eins og áður aukningu veiðiheimilda og að þeim markmiðum verði aðeins náð með markvissum hætti.
Stjórninni er því falið að leggja áherslu á tvennt til viðbótar fyrri ákvörðunum bæjarstjórnar að þessu sinni.
Tekið verði tillit til þess að þeir aðilar sem hafa gert út að staðaldri frá Sandgerðishöfn fái hærri úthlutun en aðrir sem eru að hefja útgerð frá bæjarfélaginu.
Tekið verði tillit til þess að þeir sem eru að auka við sig fiskveiðiheimildir á yfirstandandi ári fái hærri úthlutun en aðrir þar sem ljóst er að þeir eru komnir til að vera í útgerð næstu árin.
Mynd úr safni