Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Sandgerði: Bygging við grunnskólann gengur vel
Föstudagur 30. janúar 2009 kl. 11:39

Sandgerði: Bygging við grunnskólann gengur vel



Framkvæmdir hafa gengið vel við nýja viðbyggingu Grunnskólans í Sandgerði. Verkið er á áætlun og byggingin því sem næst fokhelt. Kostnaður við verkefnið nemur 900 milljónum króna þannig að um mjög stóra framkvæmd er að ræða fyrir sveitarfélagið.

Sandgerðisbær fjármagnar sjálfur framkvæmdina enda hefðu núverandi kringumstæður nánast stöðvað eða hægt mikið á verkinu ella. Allar lánalínur stífluðust við bankahrunið í haust og ljóst var að lánsloforð sem sveitarfélagið átti hjá Lánasjóði sveitarfélaga yrði ekki afgreitt fyrr en í apríl á þessu ári. Fullkomin óvissa ríkir um það hvenær lánalínur opnast að nýju. Áform um 475 milljóna króna lán sem sveitarfélagið ætlaði að taka vegna framkvæmdarinnar voru því komin í óvissu. „En sem betur fer eigum við peninga til að spila úr þannig að við þurftum ekki að hafa áhyggur af því,“ segir Sigurður Valur Ásbjarnarson, bæjarstjóri í Sandgerði. Hann segir að með þessari framkvæmd sé búið að mæta íbúaþróun næstu ára hvað varðar skólahúsnæði en á stuttum tíma hefur íbúatalan í Sandgerði vaxið úr 1400 í 1750. Nememdafjöldi skólans er 257 í dag.
„Þetta verður gjörbylting í allri aðstöðu skólans innandyra. Þarna er t.d. gert ráð fyrir stórum sal og sérstakri stofu til að kenna hússtjórnargreinarnar,“ sagði Sigurður Valur.

Fyrsta skóflustunga að nýbyggingu við Grunnskólann í Sandgerði var tekin um miðjan maí á síðasta ári og verklok eru áætluð næsta haust. Þá verða leystar af hólmi þrjár lausar skólastofur á lóð skólans.


-----

VFmynd/ elg - Viðbygging grunnskólans er nánast orðin fokheld. Hún kemur til með að gjörbylta allri aðstöðu skólans.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024