Sandgerði: Áhyggjuefni að rekstur standist ekki áætlanir
Ársreikningur Sandgerðisbæjar fyrir 2008 kom til seinni umræðu á bæjarstjórnarfundi fyrir helgi. Í bókun sem minnihlutinn lagði fram er bent á að árrsreikningur Sandgerðisbæjar fyrir árið 2008 sé engin skemmtilesning. Meirihlutinn segir ársreikninginn bera merki efnahagshrunsins en engin ástæða sé til að örvænta.
Helstu niðurstöðutölur A og B hluta eru þessar:
Rekstrartekjur 1,106,118 þús. kr.
Rekstrargjöld 1,326,503 þús. kr.
Fjármagnsgjöld 87.013 þús. kr.
Fastafjármunir 2,797,349 þús. kr.
Veltufjármunir 2,061,251 þús. kr.
Eigið fé 2,191,319 þús. kr.
Skuldbindingar 308,613 þús. kr.
Langtímaskuldir 2,046,634 þús. kr.
Skammtímaskuldir 312,033 þús. kr.
Í bókun minnihlutans er bent að á heildartekjur séu um 42 milljónum krónum lægri en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun. Rekstrargjöld fari 92 milljónum fram úr áætlunum og fjármagnstekjur og fjármagnsgjöld séu samtals 106 milljónum krónum hærri en gert var ráð fyrir. Rekstrarhalli ársins hafi verið samtals upp á 334 milljónir króna, sem sé 240 milljónum krónum hærri upphæð en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir og um 30% af heildartekjum ársins.
Í bókun meirihlutans segir m.a. að ársreikningur Sandgerðisbæjar fyrir árið 2008 beri merki efnahagshrunsins sem varð á seinni hluta árs síðasta árs. Gengistap, verðbætur og lán í erlendri mynt sem sveitarfélagið tók til framkvæmda við grunnskóla bæjarfélagsins hafa reynst verulega óhagstæð. Einnig séu það mikil vonbrigði að rekstur sveitarfélagsins og stofnana þess skuli ekki standast fyllilega áætlanir. Það sé áhyggjuefni.
Þá segir ennfremur að hagræða þurfi enn frekar í rekstri sveitarfélagsins. Til þess að ná því marki þurfi að skoða stærstu málaflokka bæjarfélagsins. Þó svo að ársreikningur Sandgerðisbæjar fyrir árið 2008 sýni lakari niðurstöðu en undanfarin ár þá sé engin ástæða til að örvænta.
Nánar um bókanir má lesa á vef Sandgerðisbæjar hér.