Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Sandgerði, Vogar og Garður koma á sameiginlegri barnaverndarnefnd
Þriðjudagur 19. október 2004 kl. 16:40

Sandgerði, Vogar og Garður koma á sameiginlegri barnaverndarnefnd

Sandgerði, Vogar og Garður hafa slitið samstarfi við Reykjanesbæ í málefnum barnaverndarnefndar. Sveitarfélögin þrjú hafa í framhaldinu ákveðið að koma sér upp sameiginlegri barnaverndarnefnd sem skal taka til starfa ekki síðar en þann 1. desember nk. Samstarfið við Reykjanesbæ hafði staðið frá desember 2002.

Reynir Sveinsson, formaður bæjarráðs Sandgerðis, sagði í samtali við Víkurfréttir að ástæðan fyrir samstarfsslitunum séu breyttar aðstæður. „Við töldum þetta einfaldlega vera hagkvæmari kost í stöðunni,“ sagði Reynir og bætti því við að þeir hefðu engar áhyggjur af framhaldinu þar sem þeir hefðu á að skipa færu starfsliði.

Hjördís Árnadóttir, félagsmálafulltrúi Reykjanesbæjar sagði að uppsögn samningsins hafi komið sér nokkuð á óvart þar sem búið var að leggja þó nokkra vinnu í að fínpússa vinnureglur sameiginlegrar barnaverndarnefndar.
Samstarfið sagði hún hafa verið með ágætum. „Við töldum til hagsbóta að hafa samræmd vinnubrögð hér á svæðinu. Þau eiga eftir að standa sig vel því þau hafa eflaust lært ýmislegt af samstarfinu sem þau munu búa að . Við hér í Reykjanesbæ erum hins vegar keik og sjálfum okkur næg.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024