Samvinnuverkefni til að styðja þá sem missa vinnuna
Stofnað hefur til samvinnuverkefnis milli sjö stéttarfélaga, Svæðisvinnumiðlunar Suðurnesja, Miðstöðvar Símenntunar og Reykjanesbæjar sem miðar að því að aðstoða þá sem mun verða sagt upp störfum hjá Varnarliðinu á næstunni. Þetta var meðal þess sem tekið var fyrir á samráðsfundi í Reykjanesbæ í dag.
Uppsagnabréf munu liggja fyrir á mánudag og getur fólk sótt þau sjálf, en annars fara þau í póst á þriðjudag.
„Við munum veita fólkinu þá þjónustu og aðstoð sem það þarf á að halda,“ segir Kristján Gunnarsson, formaður VSFK, í viðtali við Víkurfréttir. „Ég er mjög ánægður með að við skulum hafa náð þessu samkomulagi til að geta brugðist við þessum óskapnaði sem uppsagnir eru.“
Árni Sigfússon tók í svipaða strengi en lagði áherslu á að hafa þyrfti hraðar hendur. Samráðsnefnd sveitarstjórna á Suðurnesjum og ríkisvaldsins hefur enn ekki komið saman, en Árni segir það muni gerast á allra næstu dögum. „Við erum búnir að velja okkar fulltrúa og bíðum eftir að heyra frá stjórninni.“
VF-mynd/JBÓ: Frá fundinum í dag