Samvinna í atvinnumálum á Suðurnesjum

Opinn fundur Sandgerðislistans haldinn á Veitingahúsinu Vitanum í Sandgerði 23. janúar 2003 hvetur Suðurnesjamenn til aukinnar samvinnu til eflingar atvinnulífs á svæðinu.
Þingmenn, sveitarstjórnir, fyrirtæki og hagmunasamtök þurfa að taka höndum saman til að nýta þau sóknarfæri sem bjóðast á Suðurnesjum. Sóknarfærin er m.a. að finna í sjávarútvegi, ferðaþjónustu og orkuiðnaði. Þá eru tækifærin sem fylgja nálægð við alþjóðlegan flugvöll og batnandi samgöngum nær óteljandi. Þessi sóknarfæri þarf að nýta!
Í ljósi þessarar ályktunnar, sem m.a. var samþykkt af nokkrum þingmönnum og sveitarstjórnamönnum af svæðinu, og þess sem kom fram á góðum fundi í Safnaðarheimilinu í Sandgerði 06.03.2003 er greinilegt að menn álíta samvinnu lykilatriði í atvinnumálum á Suðurnesjum. Dæmin sanna að með samvinnu er hægt að ná miklum árangri. Stjórn Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum er í lykilaðstöðu til að stilla strengi Suðurnesjamanna saman og því eðlilegt að sameiginleg stefnumótunarvinna í atvinnumálum fari fram á hennar vegum. Það er eðlilegt að kalla saman þá aðila sem starfa að atvinnu- og sveitarstjórnamálum á svæðinu til að vinna hugmyndir um sameiginlegar aðgerðir. Niðurstöður slíks starfshóps geta verið gott veganesti fyrir nýjan atvinnuráðgjafa S.S.S. í þeirri vinnu sem er framundan vegna nýlegs samings sambandsins við Byggðastofnun.“