Samverustund fyrir Grindvíkinga á Brons
Veitingastaðurinn Brons í Reykjanesbæ, mun standa fyrir samverustund á laugardaginn fyrir Grindvíkinga og aðra þá sem vilja sýna Grindvíkingum samstöðu á þeim erfiðu tímum sem Grindvíkingar eru að ganga í gegnum.
Samverustundin hefst klukkan tvö og verður til sex hið minnsta og verður ýmislegt í boði. Davíð Már Gunnarsson er rekstrarstjóri Brons. „Þessi hugmynd fæddist og það er okkur á Brons, sannur heiður að reyna létta undir með nágrönnum okkar úr Grindavík. Við ætlum að bjóða upp 25% afslátt af öllum mat, það verður happy hour verð á barnum, frítt í pílu, borðspil í boði Fjörheima og svo mun Grindvíkingurinn og trúbadorinn Sibbi taka lagið.
Þetta byrjar klukkan tvö en þar á undan vonast ég til að sjá sem flesta tippara en við á Brons viljum endilega hýsa getraunastarfsemi fyrir félögin hér í Reykjanesbæ. Ég veit að þessi hefð hefur lengi verið við lýði í Gula húsinu við knattspyrnuvöll Grindvíkinga en þeir munu ekki tippa þar á næstunni og eru því velkomnir til okkar. Ég skora hér með á hin félögin að finna einhvern til að halda utan um getraunaþjónustuna, viðkomandi þarf bara að hafa fartölvu og getur því afgreitt tippara sem vilja styðja við bakið á viðkomandi félagi. Þessi komandi laugardagur er tilvalinn til að byrja þessa hefð því það er sannkallaður stórleikur í hádeginu, Manchester City á móti Liverpool. Ég hvet alla, ekki bara Grindvíkinga, til að kíkja á okkur, fá sér að borða yfir leiknum, spá í seðil dagsins, tippa og styrkja þar með sitt félag en 26% af andvirði getraunaseðils rennur til þess félags sem viðkomandi vill styrkja,“ sagði Davíð.